Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hótar Bandaríkjamönnum að loka mikilvægum herstöðvum

16.12.2019 - 00:54
epa07979136 Turkish President Recep Tayyip Erdogan attends a press conference with Hungarian Prime Minister Viktor Orban after their meeting in Budapest, Hungary, 07 November 2019.  EPA-EFE/ZSOLT SZIGETVARY HUNGARY OUT
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur verið sakaður um það af mannréttindasamtökum, stjórnarandstæðingum og erlendum ríkjum að nota valdaránstilraunina 2016 sem skálkaskjól fyrir víðtækar pólitískar hreinsanir og aðför að lýðræðinu. Mynd: EPA-EFE - MTI
Recep Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti, hótaði í kvöld að loka tveimur mikilvægum herstöðvum í landinu, þar sem bandaríski herinn er með aðstöðu. Ummælin lét Erdogan falla í sjónvarpsviðtali og bergmálaði þar með orð utanríkisráðherra síns, Mevlüt Cavusoglu, sem lét svipuð ummæli falla í síðustu viku. Raunar bergmálaði hann líka eigin orð, því þetta er ekki í fyrsta skipti sem Erdogan hefur uppi hótanir af þessum toga.

Eru þetta viðbrögð við hótunum Bandaríkjastjórnar um refsiaðgerðir vegna kaupa Tyrkja á rússnesku eldflaugavarnakerfi. „Ef nauðsyn krefur, þá getum við lokað Incirlik, og við getum líka lokað Kurecik," sagði Erdogan í viðtali á sjónvarpsstöðinni Haber í kvöld.

Mikilvægar herstöðvar Bandaríkjanna og Nató

Incerlik er stór herflugvöllur í Suður-Tyrklandi, sem bandaríski flugherinn hefur notað sem aðalbækistöð í lofthernaði sínum í Sýrlandi. Í Kurecik er stór ratsjárstöð á vegum Nató, sem tekin var í notkun árið 2012. Lokun hennar hefði því mikil áhrif á Nató-samstarfið allt, en ekki aðeins samband Tyrkja og Bandaríkjamanna, sem hefur verið nokkuð erfitt upp á síðkastið.

Stirt samband Bandaríkjanna og Tyrklands

Bandaríkjastjórn hefur ítrekað gagnrýnt Tyrklandsstjórn fyrir kaupin á rússneska S-400 eldflaugavarnakerfinu og sú gagnrýni hefur líka heyrst frá öðrum bandalagsríkjum Tyrkja í Nató.

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur oftar en einu sinni hótað Tyrkjum efnahagsþvingunum vegna þessa og bent þeim á að hann geti „lagt tyrkneskan efnahag í rúst,“ sjái þeir ekki að sér.

Til að bæta gráu ofan á svart samþykktu báðar deildir Bandaríkjaþings í síðustu viku að skilgreina fjöldamorðið á Armenum árið 1915 sem þjóðarmorð. Þá skilgreiningu hafa Tyrkir aldrei viljað viðurkenna og snúast jafnan hatrammlega gegn hverjum þeim sem halda henni á lofti.  

Armenar segja tyrkneska herinn hafa myrt um 1,5 milljónir Armena í Tyrklandi árið 1915. Tyrkir fullyrða að hinir myrtu Armenar hafi verið mun færri og að fjöldi Tyrkja hefði líka fallið í blóðbaðinu, sem aðallega megi rekja til þess hildarleiks sem fyrri heimstyrjöldin var. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV