Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hótaði starfsfólki dýralæknastofu lífláti

26.09.2018 - 13:18
Mynd með færslu
 Mynd: cc0 - pixabay
Karlmaður hefur verið dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa haft í hótunum við starfsfólk dýralæknastofu sem hann fór með hundinn sinn á, og að hafa flutt inn ólöglega stera. Maðurinn skrifaði árið 2016 á Facebook-síðu sína texta, þar sem hann hótaði að drepa starfsfólk dýralæknastofunnar.

„það bendir allt til þess að [...] hafi sýnt vanrækslu í starfi þegar gloria min for i allsherjar skoðun þar fyrir þremur vikum og ef svo sem eg mun komast i fyrramálið munuð þið ekki sja mig a faceinu næstu daga,eg ætla að stúta þessum læknabeljum krepptum hnúum og þungum höggum og senda 5 sprautusjuklinga til að kveikja i þessari dýranýðsholu til að bjarga hinum dýrunum,EG ER SVO BRJALAÐUR NÚNA AÐ SÉ JAIL TIME FRAMUNDAN,DREP ÞETTA HELVÍTIS PAKK OG ÞAÐ Í FYRRAMÁLIÐ,“ var á meðal þess sem maðurinn skrifaði.

Maðurinn var líka fundinn sekur um að hafa flutt inn eftirlíkingar af skotvopnum. Hann var ákærður fyrir að hafa reynt að flytja inn ólögleg skotvopn, en dómara þótti sannað að um eftirlíkingar hafi verið að ræða.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV