Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hóta að dreifa kynlífsmyndbandi

03.04.2013 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Tólf konur leituðu til Stígamóta á síðasta ári eftir að myndum, sem teknar höfðu verið af þeim í kynlífsathöfnum, hafði verið dreift á netinu eða þeim hótað að yrði dreift.

Ársskýrsla Stígamóta, grasrótarhreyfingar gegn kynferðisofbeldi, kom út í dag. Þar kemur fram að tólf konur hafi leitað til Stígamóta vegna kláms í fyrra sem er þó fækkun um helming frá árinu þar áður. Konurnar komu af ýmsum ástæðum. Þannig leituðu nokkrar konur sér hjálpar vegna þess að þeim misbauð klámnotkun sambýlismanna sinna.

Þá hafa konur, sem voru myndaðar í kynlífsathöfnum, bæði með og án þeirra vilja, leitað til Stígamóta eftir að mennirnir, sem tóku myndirnar, hótuðu að birta þær á netinu. Konurnar leituðu sér einnig hjálpar eftir að klámfengnar myndir af þeim voru komnar í dreifingu á netinu.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, sagði á fundi með fréttamönnum í dag að ofbeldishneigðir sambýlismenn kvennanna notuðu myndirnar til að kúga þær að sínum vilja.