Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Höskuldur harðorður í garð Sigmundar

Mynd með færslu
Höskuldur flytur ræðu sína á kjördæmisþinginu fyrir framan Sigmund Davíð og Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur, eiginkonu hans. Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi Sigmund Davíð Gunnlaugsson harðlega í framboðsræðu sinni á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Mývatnssveit og sagði að trúnaðarbrestur hefði átt sér stað milli formannsins og þingflokksins. Formaðurinn sagði flokkinn vera tilbúinn með tillögur sem myndu marka tímamót. Þórunn Egilsdóttir sagði flokksmenn þurfa að velta því fyrir sér hvernig ásýnd flokksins ætti að vera.

Ræða Höskuldar var nokkuð öðruvísi en ræður annarra sem hafa tekið til máls á flokksþinginu. Sigmundi Davíð var til að mynda tíðrætt um að hann vildi bæta samtal sitt við fólkið og hvorki Þórunn Egilsdóttir né Líneik Anna Sævarsdóttir, sem báðar sækjast eftir oddvitasætinu, gerðu mál formannsins að sérstöku umtalsefni í sínum framboðsræðum.

Sigmundur Davíð sagði sjálfur að flokkurinn væri með tillögur sem myndu marka tímamót og gerðu þeim kleift að halda ekki bara sókninni áfram heldur ná enn meiri árangri en á því kjörtímabili sem nú væri að líða. Hann viðurkenndi að hann væri ekki fullkominn og að myndi gera meira af því á komandi kjörtímabili að ræða við flokksmenn og stuðningsmenn hans í kjördæminu.

Þórunn Egilsdóttir sagði að það hversu vel flokknum hefði gengið að koma markmiðum flokksins í gegn mætti að mestu leyti þakka þeirri samstöðu sem hefði verið innan þingflokksins. „Nú í aðdraganda kosninganna þurfum við að velta því fyrir okkur hvernig Framsóknarflokkurinnn ætlar að mæta framtíðinni og hvernig við viljum hafa ásýnd flokksins.“

Líneik Anna Sævarsdóttir sagðist vera stolt af árangri flokksins í ríkisstjórninni. „Stöðugleiki í efnahagsmálum er grunnurinn að uppbyggingu og fyrirsjáanleika,“ sagði Líneik sem sagði að með sínu framboði vildi hún gefa flokksmönnum valkost við uppstillingu á listann. „Ég er tilbúinn að axla þá ábyrgð sem þið kjósið að fela mér.“

Höskuldur Þórhallsson sagði Framsóknarflokkinn standa í sömu sporum og hann gerði 2007. Hann kvaðst hafa hlakkað til kjörtímabilsins en allt hefði breyst á einni nóttu og traust almennings til flokksins hefði horfið. Hann rifjaði upp frægan fund Sigmundar Davíðs og forseta Íslands sem „var haldinn án minnsta samráðs við flokkinn.“ Hann sagði þessa atburðarrás hafa viðhaldið trúnaðarbresti milli hans og þingmanna flokksins.

Höskuldur hefur verið mjög gagnrýninn á Sigmund Davíð eftir að Wintris-málið kom upp. Í bréfi sem hann sendi á flokksmenn sagði hann flokkinn ófæran um að ganga til kosninga nema breytingar yrðu á forystunni. Þar lýsti hann einnig yfir stuðningi við Sigurð Inga Jóhannsson til að leiða flokkinn í komandi þingkosningum. 

Búist er við kosning á kjördæmisþinginu hefjist um hádegi. Reglurnar eru þannig að ef enginn fær meira en helming atkvæða þarf að kjósa milli tveggja efstu á ný.  374 eru á kjörskrá. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV