Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Horfðu fram hjá Wintris í skattskilum

02.10.2017 - 21:21
Ríkisskattstjóri hefur í úrskurði endurákvarðað skattgreiðslur á hjónin Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur vegna eignar þeirra í Wintris. Þau kærðu hluta úrskurðarins og yfirskattanefnd tók undir með þeim þannig að nú fá þau að nýta gengistap Wintris. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vék úr stóli forsætisráðherra í framhaldi af því að opinberað var meðal annars í Kastljósi 3. apríl í fyrra að aflandsfélagið Wintris í skattaskjólinu Bresku jómfrúareyjum væri í eigu eiginkonu hans, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur. 

Rúmum mánuði síðar, 11. maí í fyrra, birti Sigmundur Davíð upplýsingar um eignir og skattgreiðslur á vefsíðu sinni. Reyndar ekki skattframtöl heldur yfirlit frá KPMG um skattgreiðslur þeirra hjóna síðustu ár.

Tveimur dögum síðar, 13. maí, sendir umboðsmaður þeirra hjóna Ríkisskattstjóra bréf þar sem beðið er um endurákvörðun og sagt að horft hafi verið fram hjá Wintris í skattskilum þeirra en sú eign hefði verið talin fram sem eign Önnur Sigurlaugar. 

Þar segir að ekki sé útilokað að réttara hefði verið að haga skattskilum þeirra hjóna gjaldárin 2011 og áfram eftir CFC-reglum. Þær gilda um skattlagningu eigna í skattaskjólum.  

Tveimur dögum fyrir jól í fyrra úrskurðaði svo ríkisskattstjóri. En gerði þeim ekki álag. En álagi er almennt ekki beitt ef málið varðar lagatúlkun, samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra. 

Í byrjun mars á þessu ári kærðu þau Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug hluta af úrskurði Ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar.

Þar kemur fram að þau uni úrskurði Ríkisskattstjóra hvað varði endurákvörðun auðlegðarskatts, uni hækkun á stofni Önnu Sigurlaugar til tekjuskatts og útsvars gjaldárið 2011 og ákvörðun ójafnaðs rekstrartaps hennar næstu fjögur ár á eftir, þá uni þau lækkun á stofni Sigmundar Davíðs til greiðslu skatts af fjármagnstekjum. 

Það sem þau una ekki og kæra er að Ríkisskattstjóri heimilaði ekki í úrskurði sínum að Wintris væri gert upp í íslenskum krónum. Með uppgjöri í íslenskum krónum er meðal annars hægt að nýta gengistap milli ára. 

Yfirskattanefnd úrskurðaði þeim í vil nú í september og lækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn Önnu Sigurlaugar gjaldárið 2011 um 52 milljónir og gengistapið í samræmi við það sem þau kröfðust það er að uppsafnað gengistap Wintris væri um 162 milljónir í stað tæplega 51 milljónar eins og Ríkisskattstjóri úrskurðaði.  

Hins vegar úrskurðaði Yfirskattanefnd þeim hálfa milljón í málskostnað en þau höfðu beðið um að 2,1 úr ríkissjóði. 

Ekki liggur fyrir hve háa fjárhæð þau Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug þurfa að greiða enda kemur það ekki fram í úrskurði Yfirskattanefndar og Ríkisskattstjóri birtir ekki úrskurði. Þó má lesa úr þessum flókna úrskurði Yfirskattanefndar að þótt þau geti notað gengistapið í uppgjörum næstu ára þá þurfa þau líka að taka á sig skattahækkun það er borga meira í skatt heldur en þau gerðu áður þau báðu um endurákvörðun hjá skattinum rúmum mánuði eftir að upplýst var um Wintris. 

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV