Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Hörðustu gagnrýnendur tjá sig ekki

25.10.2011 - 07:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Þeir þingmenn sem harðast gagnrýndu ráðningu Páls Magnússonar í starf forstjóra Bankasýslunnar hafa ekki tjáð sig um afsögn stjórnar Bankasýslunnar.

Stjórnin óskaði í gær eftir því við fjármálaráðherra að verða leyst frá störfum. Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í kjölfarið, eru utanaðkomandi afskipti af ráðningu Páls Magnússonar sögð gera það að verkum að stjórninni sé ekki lengur sætt. Þá bendi viðbrögð alþingismanna til þess að erfitt verði fyrir Bankasýsluna að starfa með eðlilegum hætti.

Ekki hefur tekist, þrátt fyrir ítrekaðar tilrauni fréttastofu í morgun og gærkvöld, að ná í Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formann fjárlaganefndar og Helga Hjörvar, formann efnahags- og viðskiptanefndar, en þau gagnrýndu ráðninguna hvað harðast opinberlega. Þá hafa engin viðbrögð heyrst frá Páli Magnússyni sjálfum. 

Stjórnina, sem nú lætur af störfum, skipuðu þau Þorsteinn Þorsteinsson, rekstrarhagfræðingur, Sonja María Hreiðarsdóttir, lögmaður og Steinunn Kristín Þórðardóttir, rekstrarhagfræðingur.