Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Hörð viðbrögð við Hæstaréttardómi

15.02.2012 - 17:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Alþingismönnum var heitt í hamsi á þingfundi sem nú stendur yfir þegar tíðindi bárust af nýföllnum gengislánadómi Hæstaréttar. Eygló Harðardóttir sagði að hér væri Hæstiréttur að gera mjög alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og Árna Páls Árnasonar, fyrrum ráðherra efnahagsmála.

Tóku aðrir þingmenn stjórnarandstöðu undir þessi orð. Vigdís Hauksdóttir sagði að enn á ný væri þetta vitnisburður um verklausa ríkisstjórn, hún hljóti að fara frá, henni beri að fara frá, sagði þingmaðurinn.

Dómurinn er fordæmisgefandi en Hæstiréttur klofnaði í afstöðu sinni, 4-3. Niðurstaða dómsins var að Frjálsa fjárfestingabankanum hafi verið óheimilt að endurreikna lán aftur í tímann miðað við íslenska verðtryggða vexti og þannig krefjast hærri vaxtagreiðslna miðað við vaxtamið Seðlabankans.

Hjónin höfðu tekið 5 lán hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum á árunum 2004 og 2006. Töldu þau að í skuldabréfum sem gefin voru út af því tilefni væru ógildar skuldbindingar um viðmiðun lánsfjárhæða við gengi erlendra gjaldmiðla. Þau höfðu staðið í skilum og gerðu kröfu í þrotabú bankans þar sem þau töldu sig hafa ofgreitt. Á þetta féllst Hæstiréttur í febrúar í fyrra og dæmdi Frjálsa til að greiða hjónunum allan málskostnað, eina milljón króna.

Skuldajöfnuðu málskostnaðinum inn á lán

Þegar hjónin hugðust fá málskostnaðinn greiddan var þeim sagt að milljóninni hefði verið skuldajafnað inn á lán hjónanna. Taldi bankinn að hjónin skulduðu enn og byggði það á þeim grundvelli að vextir af þeim lánum, sem hvorki voru verðtryggð né bundin gengi erlendra gjaldmiðla, hefðu verið hærri en vextir af lánum í erlendri mynt, sem sóknaraðilar höfðu þegar greitt. Málið nú snerist um það hvort þetta hafi verið rétt mat hjá bankanum eða hvort hjónin hefðu lokið greiðslu vaxta af bréfinu með því að hafa á réttum gjalddögum greitt þá vexti sem varnaraðili hafi krafist og tekið við án athugasemda.

Bankinn mátti ekki krefjast vaxta aftur  í tímann

Segir í dómi Hæstaréttar að það hafi staðið Frjálsa fjárfestingabankanum nær en hjónunum að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust. Rangur lagaskilningur bankans yrði í uppgjöri aðeins leiðréttur til framtíðar en ekki aftur í tímann. Niðurstaða Hæstaréttar var því sú að skilyrði skuldajafnaðar hefðu ekki verið fyrir hendi. Af því leiðir, segir í dómnum, að varnaraðili geti ekki krafið sóknaraðila um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann. Bankanum var því gert að greiða hjónunum hvoru um sig samtals 1,1 milljón króna.