Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hörð viðbrögð vegna albönsku fjölskyldunnar

10.12.2015 - 10:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslensk stjórnvöld eru harðlega gagnrýnd eftir að fjögurra manna albönsk fjölskylda var sótt að næturlagi af hópi lögreglumanna og henni vísað úr landi klukkan 4 í nótt. Formaður velferðarnefndar segir að íslensk stjórnvöld haldi upp á alþjóðlegan dag mannréttinda með því reka burtu albönsk börn og foreldra þeirra.

DV hefur fjallað um mál albönsku fjölskyldunnar að undanförnu. Sonur hjónanna er langveikur og fjölskyldufaðirinn hefur verið í fastri vinnu hjá íslensku fyrirtæki. Á vef Stundarinnar eru birtar myndir af því þegar lögreglumenn sóttu fjölskylduna í nótt og fóru með hana út á Keflavíkurflugvöll.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa margir gagnrýnt þessa ákvörðun Útlendingastofnunar. „Ísland er ríkt land sem vantar fólk. Tökum þeim opnum örmum,“ skrifar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis.

Í dag er alþjóðlegur dagur mannréttinda. Íslensk stjórnvöld hófu hátíðahöldin rétt upp úr miðnætti með því að reka burt...

Posted by Sigríður Ingibjörg Ingadóttir on 10. desember 2015

Katrín Júlíusdóttur, varaformaður Samfylkingarinnar, segist skammast sín og sendir innanríkisráðherra tóninn.

Þykir óskaplega leitt að stjórnvöld skuli hafa gert þetta. Langveikt barn sem tilheyrir fallegri fjölskyldu, sent úr...

Posted by Katrín Júlíusdóttir on 10. desember 2015

Í sama streng tekur Þorsteinn Guðmundsson, leikari.

Ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur í dag.

Posted by Þorsteinn Guðmundsson on 10. desember 2015

Róbert Marshall skrifar á Facebook-síðu sína: „Það hlýtur að vera eitthvað verulega mikið að í landi sem vísar í burtu fólki með veik börn. Maður skammast sín innilega.“

Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar og borgarfulltrúi VG, segir að miskunnarleysi sem þetta eigi ekki að líðast.

Lítið, langveikt barn sem á sér engar bjargir. Sent út í óvissuna af ríkisstjórn sem kennir sig við hag heimilanna. Miskunnarleysi sem á ekki að líðast - hvorki á degi mannréttinda né öðrum dögum.

Posted by Sóley Tómasdóttir on 10. desember 2015

Auður Jónsdóttir, rithöfundur, upplýsti á Facebook-síðu sinni að hún hefði reynt að hringja í Ólöfu Nordal.

Það á að senda burt fjölskyldu í skjóli nætur, að ég held núna í nótt, þau verða sótt klukkan eitt. Reglurnar flokka þau...

Posted by Audur Jonsdottir on 9. desember 2015

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði að mikil megi skömm allra vera sem tóku þátt í „þessum myrkraverkum.“

Mikil má skömm allra vera sem tóku þátt í þessum myrkraverkum í nótt!

Posted by Birgitta Jónsdóttir on 10. desember 2015

Fréttastofa Stöðvar 2 fjallaði um mál annarrar albanskrar fjölskyldu í kvöldfréttum sínum í gær. 3 ára sonur hjónanna er með hjartagalla.

Útlendingastofnun hefur áður verið gagnrýnd fyrir að senda albanska fjölskyldu úr landi.

Stofnunin sagði í yfirlýsingu á vefsíðu sinni í október síðastliðnum: „Á undanförnum árum hafa hælisleitendur frá Albaníu verið afar áberandi á Íslandi en fyrirliggjandi upplýsingar og mannréttindaskýrslur eru samhljóða um að Albanía sé friðsælt lýðræðisríki þar sem hvorki er stríðsástand né ógnarstjórn. Mannréttindi eru almennt virt og eftirfylgni við glæpi og afbrot er góð þrátt fyrir að enn sé umbóta þörf á sumum sviðum. Albönsk yfirvöld eru fær um að vernda borgara sína og veita þeim aðstoð.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV