Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hörð gagnrýni á gerð stjórnarskrár

09.11.2012 - 20:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Nokkrir af þekktustu fræðimönnum landsins á sviði stjórnmála og lögfræði gagnrýna harðlega allt ferlið í kringum gerð nýrrar stjórnarskrár. Björg Thorarensen lagaprófessor segir að þjóðaratkvæðagreiðslan í október hafi verið ómarkviss og ótímabær.

Nokkurra mánaða fundaröð um breytingar á stjórnarskránni hófst í Háskóla Íslands í dag - efni þessa fundar var hvort niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í október bindi hendur þingmanna, þegar kemur að því að fjalla um tillögur stjórnlagaráðs. Nei - segir Björg Thorarensen, lagaprófessor - spurningar voru ekki nógu skýrar og afmarkaðar. 

„sú atkvæðagreiðsla sem var hér í október er gífurlega opin margþættar spurningar sem voru lagðar fyrir kjósendur og það er útilokað að þingmenn séu bundnir af óskilgreindum vilja um breytingar á stjórnarskránni,“ segir Björg Thorarensen, lagaprófessor við HÍ.Hún segir að þjóðaratkvæðagreiðslan sé ótímabær, ómarkviss og líkleg til að leiða til deilna um túlkun niðurstöðu hennar.

Björg vill að í stað þess að Alþingi taki allar tillögur stjórnlagaráðs fyrir, verði í vetur einungis fjallað um afmarkaða kafla, sem hægt væri að ná sátt um. En ferlið - allt frá þjóðfundinum 2010, hlaut líka harðan dóm á fundinum í dag.

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði gagnrýndi meðal annars þjóðfundinn. „Suma hluti ferlisins var farið í dýra hluti eins og þjóðfund og þjóðaratkvæðagreiðsu, um þá hluti held ég að megi segja að vönduð skoðanakönnun hefði veitt fyllri og gagnlegri uplýsingar fyrir miklu minni fjármuni en var eytt í þetta ferli.“

Stjórnlagaráð fékk sinn skerf - tillögur þess  voru taldar ómarkvissar og taka mið af málefnum líðandi stundar..þar væru líka lagðar til róttækar breytingar á stjórnskipun landsins. 
Gunnar Helgi sagði að í stjórnarskrám Norðurlandanna væri ekki að finna jafn róttæka útfærslu að þjóðaratkvæðagreiðslum og í drögum stjórnlagaráðs.