Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hörð átök í mótmælum á Norðurbrú

14.04.2019 - 17:06
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Lögreglumenn gripu til vopna á Blágarðstorginu á Norðurbrú í Kaupmannahöfn í dag, eftir að það kom til átaka milli lögreglu og mótmælenda. Lögregla beitti táragasi til að tvístra óeirðarseggjum sem tókust á, kveiktu í gámum og köstuðu grjóti og öðru lauslegu að lögreglu.

Rasmus Paludan fer fyrir hópi fólks sem hefur mótmælt í Kaupmannahöfn síðustu vikur. Hann er leiðtogi stjórnmálaflokks sem vill fækka útlendingum í Danmörku, en hann berst einnig gegn íslamsvæðingu. Hann hefur skipulagt mótmæli í miðborg Kaupmannahafnar síðustu sunnudaga, meðal annars vegna þess að múslimar biðja fyrir framan þinghúsið á hverjum sunnudegi. Paludan og félagar hans hafa mætt á torgið, blásið í lúðra og látið öllum illum látum til að trufla bænastundina, og fyrir nokkru brenndi hann eintak af kóraninum til að ögra þeim sem þar báðust fyrir. 

Flokkur Paludans nefnist Stram Kurs en hann var stofnaður 2017. Paludan hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir hatursummæli en eftir að það sauð upp úr á Blágarðstorginu í dag bað lögregla hann um að yfirgefa svæðið, því mikill hiti var í báðum hópunum. Hann segir við fréttastofu danska ríkisútvarpsins að lögregla hafi ekki gert neitt til að verja sig fyrir árásum andstæðinga sinna. Hann slasaðist ekki en segir að fötin sín hafi verið rifin. Hann gagnrýnir störf lögreglu og hefur boðað frekari mótmæli síðar í dag. Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hvatti fólk til þess að mæta Paludan með rökum ekki ofbeldi. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV