Hópast á íbúafund Vegagerðar um Vestfjarðaveg

09.01.2019 - 13:03
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Þetta stendur okkur nærri, þetta plagar okkur og heftir, segir sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps um Vestfjarðaveg um Gufudalssveit. Hún segir að skipulagsvaldi Reykhólahrepps fyrir leiðarval vegarins fylgi ábyrgð og vill að sveitarstjórninn horfi til sjónarmiða annarra sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum og hefur hvatt fólk til hópferðar á íbúafund Vegagerðarinnar á Reykhólum í dag.

Íbúafundur um afstöðu Vegagerðarinnar

Vegagerðin stendur fyrir íbúafundi á Reykhólum í dag kl. 16.30 um vegagerð um Gufudalssveit. Vegagerðin telur leið Þ-H um Teigsskóg vera vænlegasta kostinn en niðurstaða valkostagreiningar sem var unnin fyrir Reykhólahrepp var að vænlegasti kosturinn væri svokölluð R-leið um Reykhóla og brú yfir Þorskafjörð.

Hvetur fólk til að slást í för á fundinn

Sveitarfélög á sunnaverðum Vestfjörðum og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar eru meðal þeirra sem að hafa gert ákall til sveitarstjórnar Reykhólahrepps um að velja leið Þ-H í ótta um að annað tefji framkvæmdir. Sveitarstjóri Reykhólahrepps telur hins vegar að leið R valdi ekki töfum. Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri í Tálknafjarðarhreppi, ætlar á fundinn í dag og hefur hvatt fólk til að slást í för frá sunnanverðum Vestfjörðum. „Þetta stendur okkur svo nærri, þetta skiptir svo ofsalega miklu máli, þetta plagar okkur og heftir okkur til framtíðar, og þetta er hættulegt. Ég myndi vilja heyra það hreint út er raunverulega jafnlangur tími í að hægt sé að hefja hefja framkvæmdir eins og ef farin yrði þessi R-leið.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps

 

Vill að sveitarstjórn lítil til annarra sjónarmiða

Bryndís telur að fyrir flestum sé tíminn það sem mestu máli skipti: „Við getum ekki beðið lengur.“ Laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum sé til dæmis í miklum vexti og það gangi ekki að aka veginn með fleiri þúsund tonn af laxi lengur, það sé ekki hægt. Bryndís segir málfutning íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum ekki til að draga úr mikilvægi þess að sveitarfélög fari með sitt eigið skipulagsvald. „Það að hafa þetta vald fylgir líka ábyrgð og þess vegna gengur okkar málfutningur út á það að fá Reykhólahreppssveitarstjórnina til að sjá okkar sjónarmið.“

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi