Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

HönnunarMars verður í júní

Mynd: RÚV / RÚV

HönnunarMars verður í júní

12.03.2020 - 11:24

Höfundar

Nýlega bárust af því fréttir að Hönnunarmars hefði verið frestað fram á sumar. Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar, segir að allt hafi verið reynt til að halda hátíðina í mars og meðal annars kannaður möguleikinn á að halda rafrænan Hönnunarmars. Niðurstaðan varð að sú að frestun var óumflýjanleg.

„Við ákváðum fyrir tveimur dögum að þetta yrði óumflýjanlegt. Við sáum þrjá kosti í stöðunni, að hætta alveg við Hönnunarmars, að fresta honum eða halda hann með breyttu sniði,“ segir Halla í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Halla segist hafa dvalið við þann möguleika að halda Hönnunarmars með breyttu sniði. Sérstaklega var litið til þess hvort mögulegt væri að hafa hann rafrænan. Viðburðurinn byggist þó mikið á því að fólk hittist og eigi í samskiptum og því var óumflýjanlegt að fresta honum. Það er mikið mál að fresta svo stórum viðburði en Halla segir að forsvarsfólk hátíðarinnar hafi talið það skyldu sína að fresta honum þar til síðar í stað þess að hætta alveg við. 

Hönnunarmars verður því 24.-28. júní og Halla segir að nú sé tíminn nýttur í verkefni sem ekki hafi tími gefist til að klára. Þegar búið að hafa samband við alla sem koma að Hönnunarmars. „Við fundum fyrir gríðarlegum meðbyr í okkar hópi. Við hringdum í alla þátttakendur á einum eftirmiðdegi. Við fórum í að tala við alla stuðningsaðila og samstarfsaðila og fengum gríðarlega mikinn stuðning og jákvæðni gagnvart þessari ákvörðun,” segir Halla sem stefnir nú ótrauð á Hönnunarjúní.

Tengdar fréttir

Hönnun

Hönnunarmars frestað til sumars vegna COVID-19