Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Holuhraunsmökkur kom aftur til baka frá Evrópu

12.06.2017 - 09:07
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Nýjar rannsóknir sýna að gosmökkurinn úr Holuhrauni skilaði sér aftur til Íslands eftir að hafa farið um Evrópu og víðar. Eldfjallafræðingur segir að mikilvægt sé að skoða áhrif þessa gamla gosmakkar á heilsu fólks.

Eldgos hófst í Holuhrauni í ágúst 2014. Eldsumbrotunum fylgdi mikið af brennisteinsdíoxíði og öðrum hættulegum gastegundum sem dreifðust um allt land. Veðurstofan gaf reglulega út viðvaranir vegna gasmengunar frá eldstöðinni fram í febrúar 2015 þegar gosinu lauk. Evgenía Ilyinskaya, eldfjallafræðingur við Háskólann í Leeds í Bretlandi, hefur rannsakað gosmökkinn í samstarfi við Veðurstofuna og Umhverfisstofnun.

„Það sem við komumst að er að þessi mengun hún hreyfðist á áður ófyrirséðan hátt. Það kom mengun, fyrsti mökkurinn kom beint frá eldstöðinni og svo kom mökkurinn stundum til baka, eftir að mökkurinn hafði farið til Evrópu, snúið við og komið svo aftur yfir Ísland. Og sú mengun, það bjóst enginn við henni, og það var ekki spáð fyrir um  hana,“ segir Evgenía.

Gosmökkurinn fór þá bara einhverja hringferð um Evrópu og kom svo aftur til Íslands? „Já, stundum fór hann til Evrópu, stundum fór hann til Grænlands, bara eftir því hvernig vindáttin var, og kom svo aftur nokkrum dögum seinna til Íslands,“ segir Evgenía.

Þannig hafi viðvaranir, sem Veðurstofan gaf út, ekki alltaf náð að spá fyrir um gosmengun. Til að mynda hafi verið gosmengun á höfuðborgarsvæðinu í hátt í 3 vikur á meðan spáin lofaði góðum loftgæði. Evgenía segir óvíst hver séu áhrif þessa gamla gosmakkar á heilsufar fólks.

„Við vitum það ekki en við erum að skoða gögn í samstarfi við Háskóla Íslands,“ segir Evgenía.

Niðurstöður rannsóknar Evgeníu eru birtar í tímaritinu Earth and Planetary Science Letters