Hollywood leggur Klaustur undir sig

Mynd með færslu
 Mynd:

Hollywood leggur Klaustur undir sig

10.09.2013 - 14:06
Tökur á Interstellar, kvikmynd Christophers Nolans, hófust í dag við Kirkjubæjarklaustur. Öll hótel á svæðinu eru uppbókuð auk þess sem sumir íbúar Klausturs hafa leigt húsin sín út til tökuliðsins. Sumarbústaðaeigendur á svæðinu hafa einnig komist í feitt og leigt út húsin sín.

Um 120 búa á Klaustri, íbúatala bæjarins hefur því næstum þrefaldast en rúmlega 300 manns koma að tökum myndarinnar hér á landi.

Tökurnar fara að mestu leyti fram við Orrustuhól og Svinafellsjökul en þjóðgarðsvörður gaf Saga Film, sem þjónustar tökuliðið hér á landi, leyfi fyrir því að loka völdum gönguleiðum við jökulinn. 

Þótt tökurnar sjálfar standi ekki yfir nema í tvær vikur er undirbúningur vegna myndarinnar búinn að vera í gangi í þrjár vikur.  Auglýst var eftir húsum til að leigja og eftir því sem fréttastofa kemst næst brugðust allnokkrir íbúar vel við þeim óskum.

Smiðir unnu hörðum höndum að því að reisa leikmynd fyrir kvikmyndatökuliðið í tæka tíð - allur bærinn er undirlagður af stórmyndinni og íbúarnir eru þöglir sem gröfin. Enda mikil leynd sem hvílir yfir þessa mynd.

Hollywood-stjörnurnar þrjár, þau Matt Damon, Anne Hathaway og Matthew McConaughey, komu til Klausturs í gærkvöld og í morgun.  Þau komu ekki með einkaþotum eins og þær Hollywood-stjörnur sem sótt hafa landið heim að undanförnu. Mbl.is greinir meðal annars frá því að Hathaway hafi látið lítið fyrir sér fara á Saga Class.

Tökuliðið fær prýðisveður þessa vikuna, hægur vindur og smá rigning. Á föstudag ætti að stytta upp, ef marka má vef Veðurstofunnar.

[email protected]

Tengdar fréttir

Mannlíf

Nolan kemur með tonn af aukabúnaði

Mannlíf

Ísland lykilstaður hjá Nolan

Leiklist

Nolan fær leyfi fyrir níu gámum