Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hollendingar og Bretar fagna

29.10.2011 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Hollenski seðlabankinn fagnar niðurstöðu hæstaréttar frá í gær um að neyðarlögin haldi gildi sínu. Sveitastjórnir í Bretlandi sem áttu há heildsöluinnlán í íslensku bönkunum eru hæst ánægðir með niðurstöðuna og búast við fyrstu endurgreiðslum innan nokkurra vikna.

Margir af helstu fréttamiðlum í Bretlandi og Hollandi fjalla um niðurstöðu Hæstaréttar frá í gær en samkvæmt henni halda neyðarlögin frá árinu 2008 gildi sínu. Það þýðir að Hæstiréttur telur að ákvæði stjórnarskrárinnar hafi ekki verið brotin þegar bankainnstæður voru gerðar að forgangskröfum í bú bankanna á kostnað almennra kröfuhafa. Icesave innstæðueigendur og eigendur svokallaðra heilsöluinnlána hafa því forgang á aðrar kröfur.

Haft er eftir bæjarráðsmönnum í bænum Kent á Bretlandi að þeir séu hæst ánægðir með niðurstöðuna en bæjarfélagið var einn stærsti breski innstæðueigandi í íslensku bönkunum. En bæjarráðið átti um fimmtíu milljónir punda innstæðu þegar bankarnir féllu. John Simmonds, bæjarráðsmaður í Kent segist reikna með greiðslu frá þrotabúinu innan nokkurra vikna. Niðurstaða Hæstaréttar Íslands sé í samræmi við væntingar bæjarráðsmanna og þeir áætli að innstæður bæjarins verði greiddar til baka að fullu. 

Þá fagnar hollenski seðlabankinn niðurstöðu Hæstaréttar í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér. Niðurstaðan staðfesti að endurgreiðslur innlánanna geti hafist fljótlega.

Lögmenn Landsbankans sögðu á blaðamannafundi í kjölfar dómsins í gær þó of snemmt að segja nákvæmlega til um hvenær greiðslur úr bú bankans hefjist. Niðurstaðan verði væntanlega kynnt kröfuhöfum á fundi sautjánda nóvember.
„Fæst orð bera minnsta ábyrgð í því. það er að svo mörgu að huga í tengslum við útgreiðslur og gríðarlega mikið af tæknilegum þáttum sem þarf að leysa úr, það þarf að reikna hverja einustu kröfu til fullnustu þanngi að það væri óábyrgt af okkur að vera að gefa út fyrir eða eftir einhvern ákveðin tima,“ sagði Halldór Bachman lögmaður í viðtali við fréttastofu RÚV.