Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Höldum ekki umboðinu í einhverju gríni“

10.12.2016 - 12:34
Mynd: RÚV / RÚV
Smári McCarthy, einn af þremur umboðsmönnum Pírata, segir að forsetinn ætli ekki að leyfa flokknum að halda stjórnarmyndunarumboðinu í einhverju gríni. Unnið sé að myndun ríkisstjórnar í fullri alvöru og flokkunum fimm miði hratt áfram. „Við höfum verið með umboðið í átta daga og þótt þetta taki einhverja daga í viðbót veldur það engum vandræðum,“ segir Smári.

Hann var gestur Vikulokanna á Rás 1 ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Birni Val Gíslasyni, varaformanni VG.

Flokkarnir fimm sem hafa ræðst við óformlega um myndun nýrrar ríkisstjórnar undir forystu Pírata ætla að hittast á fundi klukkan hálf tvö í dag. Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði í Vikunni hjá Gísla Marteini í gærkvöld að hún teldi um 90 prósent líkur á því að ný ríkisstjórn verði mynduð fyrir næsta föstudag.

Smári er einnig bjartsýnn á viðræður flokkanna. „Við höfum nálgast hvert viðfangsefni fyrir sig og það sem hefur komið út úr því er mikill samstarfsvilji. Ég sé ekki annað en að þetta muni ganga. Það kæmi mér á óvart ef þetta gengi ekki.“

Hann segir að flokkarnir séu að fara yfir stóru málin og ástæðan fyrir því að þetta taki langan tíma sé sú að þau vilji vanda sig. Það að þau séu enn að tala saman eftir vikulangar viðræður sé fagnaðarefni í sjálfu sér.

Hann segir að flokkarnir séu búnir að ræða stjórnarskrármálið, sjávarútveg að einhverju leyti og byrjaðir að ræða landbúnað. Ekki sé þó tímabært að greina frá því hvað hafi komið út úr þessum viðræðum. Hann segir þó að þeir séu komnir lengra á veg en síðast þegar slitnaði upp úr formlegum viðræðum þeirra. Nokkur flókin mál séu þó eftir. Hann hafi þó verið á fundi um sjávarútvegsmálin í gær og sá fundur hafi ekki reynst jafn flókinn og hann átti von á. „Ég skynjaði mjög góðan samstarfsvilja og það eru allir að toga í sömu átt.“

Áslaug Arna segir það verða forvitnilegt hvernig stefnumál þessara fimm flokka gangi saman - hversu mikið Píratar væru reiðubúnir til að gefa eftir sem og Viðreisn og Vinstri grænna. Hún gagnrýndi hversu langan tíma þetta hefði tekið - ekki síst í ljósi þess að þetta væri í annað sinn sem flokkarnir væru að ræða saman. „Þeir hafa verið að ræða saman í tvær vikur samtals. Þannig að manni finnst sérkennilegt að þetta fari ekki að smella saman hjá þeim ef þau ætla á annað borð að láta þetta ganga.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV