Högna fæddist í Vestmannaeyjum árið 1929, hóf nám við École des beaux-arts í París fyrst Íslendinga og útskrifaðist sem arkitekt árið 1960. Þó Högna hafi lengst af búið í París og starfað sem arkitekt þar vann hún líka að verkefnum hérlendis.
Meðal þess sem ber störfum hennar merki eru einbýlishús sem reist voru í Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ á sjöunda áratugnum. Eitt þeirra er einbýlishús við Bakkaflöt 1 í Garðabæ. Ytra byrði þess var friðað árið 2011. Í umsögn sagði að í húsinu birtist næm tilfinning Högnu fyrir landslagi og náttúru: „Á meistaralegan hátt tekst höfundi að endurskapa andrúm og efniskennd íslenskra torfbæja í nútímalegum formum og frjálsri rýmisskipan. Þessi frumlega túlkun á sérkennum íslenskrar byggingarlistar hefur orðið til þess að margir hafa tilnefnt þetta hús sem eitt merkasta framlag einstaklings til íslenskrar nútímabyggingarlistar.“ Húsið var valið eitt af 100 merkustu byggingum 20. aldar í norður- og miðhluta Evrópu þegar gefið var út alþjóðlegt yfirlitsrit um byggingarlist 20. aldar.