Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Högna Sigurðardóttir látin

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Steinsteypuöldin

Högna Sigurðardóttir látin

14.02.2017 - 17:02

Höfundar

Högna Sigurðardóttir arkitekt er látin, 88 ára að aldri. Hún vakti snemma athygli fyrir störf sín; fyrir það að verða fyrst kvenna til að teikna hús á Íslandi en ekki síður fyrir viðhorf sín til arkitektúrs. Þar lagði hún áherslu á tengsl húss við land og náttúru. Högna leit svo á að húsið og innra byrði væru órofa heild, þannig urðu borð, bekkir og rúm innbyggður hluti af húsinu en ekki húsgögn sem bætt var við síðar. Þá lék hrá ómáluð steypa stórt hlutverk í hönnun hennar.
Mynd: RÚV / Steinsteypuöldin

Högna fæddist í Vestmannaeyjum árið 1929, hóf nám við École des beaux-arts í París fyrst Íslendinga og útskrifaðist sem arkitekt árið 1960. Þó Högna hafi lengst af búið í París og starfað sem arkitekt þar vann hún líka að verkefnum hérlendis.

Meðal þess sem ber störfum hennar merki eru einbýlishús sem reist voru í Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ á sjöunda áratugnum. Eitt þeirra er einbýlishús við Bakkaflöt 1 í Garðabæ. Ytra byrði þess var friðað árið 2011. Í umsögn sagði að í húsinu birtist næm tilfinning Högnu fyrir landslagi og náttúru: „Á meistaralegan hátt tekst höfundi að endurskapa andrúm og efniskennd íslenskra torfbæja í nútímalegum formum og frjálsri rýmisskipan. Þessi frumlega túlkun á sérkennum íslenskrar byggingarlistar hefur orðið til þess að margir hafa tilnefnt þetta hús sem eitt merkasta framlag einstaklings til íslenskrar nútímabyggingarlistar.“ Húsið var valið eitt af 100 merkustu byggingum 20. aldar í norður- og miðhluta Evrópu þegar gefið var út alþjóðlegt yfirlitsrit um byggingarlist 20. aldar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Steinsteypuöldin

Högna hlaut ýmsar viðurkenningar á ferlinum. Þeirra á meðal má nefna að árið 1992 tók hún sæti í akademíu franskra arkitekta. 2007 hlaut hún heiðursorðu Sjónlistar fyrir einstakt framlag til íslenskrar nútímabyggingarlistar. Ári síðar var hún kjörin heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Steinsteypuöldin