Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Höggvið í brún Ingólfsfjalls

Tvær milljónir rúmmetra af möl og grjóti eru unnar úr suðurbrún Ingólfsfjalls, samkvæmt framkvæmdaleyfi frá árinu 2006. Fjallið ber nú skýr merki um efnistökuna, en brúnin verður lækkuð um 80 metra áður en yfir lýkur.

Malarnámið í Ingólfsfjalli fer varla fram hjá nokkrum manni sem á leið um Suðurlandsundirlendið. Þórustaðanáma er 60 ára gömul og hefur löngum séð fyrirtækjum á Árborgarsvæðinu fyrir möl og sandi í vegi og húsbyggingar. Í fyrstu var efni aðeins tekið úr rótum fjallsins, en árið 2004 tóku Fossvélar að vinna efni úr fjallsbrúninni. Og það gera þær enn.

„Það fer maður á ýtu upp á morgnana, hann rippar upp plani þarna á daginn, og svo á kvöldin ýtir hann niður því sem hann hefur unnið yfir daginn," útskýrir Magnús Ólason, framkvæmdastjóri Fossvéla.

Harðar deilur um framkvæmdina

Um þetta verklag var deilt á sínum tíma, og framkvæmdin fór í umhverfismat.

Skipulagsstofnun lagðist gegn því að leyfið yrði veitt í apríl 2006, vegna verulega neikvæðra, varanlegra og óafturkræfra sjónrænna áhrifa á landslag. Fossvélar fengu þó framkvæmdaleyfi til tíu til fimmtán ára hjá sveitarfélaginu Ölfusi, til að vinna allt að 2 milljónir rúmmetra af efni á um 400 metra kafla uppi á fjallsbrúninni. Brúnin yrði þannig lækkuð um 80 metra, sem er á við Hallgrímskirkjuturn.

Kastljós fjallaði um málið árið 2006, og sýndi þar hver hin sjónrænu áhrif yrðu. 

Skoðanir enn skiptar

Guðrún Tryggvadóttir var ein þeirra sem barðist gegn því að efnistakan úr fjallsbrúninni yrði leyfð, og varð fyrir miklum vonbrigðum þegar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála staðfesti ákvörðun Ölfuss árið 2006.

„Þannig að sveitarstjórnir geta í dag gert hvað sem er, og eyðilagt heilu fjöllin án þess að nokkuð sé gert í málinu," segir hún.

Nú er liðinn meira en áratugur frá því að efnistakan var leyfð, og eftirspurnin eftir möl og sandi úr námunni hefur sjaldan verið meiri. Og forsvarsmenn Fossvéla eru hvergi bangnir að brjóta fjallsbrúnina niður í allra augsýn: „Nei í rauninni ekki," segir Magnús. „Við erum ekki að taka fjallið niður, brúnin færist bara innar. Við erum í raun bara að taka niður einn kant. Einhvers staðar þarf að taka efni. Við erum með öll leyfi fyrir þessu, og í sátt og samlyndi við flest alla."

En Guðrún er á meðal þeirra sem hafa enn ekki sætt sig við framkvæmdirnar.

„Mér finnst þetta bara til skammar. Mér finnst þetta ljót mynd og ljót aðkoma bæði fyrir ferðamenn og íbúa að sjá þessa eyðileggingu á fjallinu alla tíð og tíma, og ég vona að við lærum af þessu. Að gera ekki svona mistök aftur," segir Guðrún.

 

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV