Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Höfundar þjóðarsáttar og vinnumaurar

25.02.2015 - 00:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsenda þess að þjóðarsátt náðist 1990 var að Einar Oddur Kristjánsson, Guðmundur J. Guðmundsson og fleiri voru búnir að læra af reynslunni, segir sagnfræðingur. Núverandi forseti átti sinn hlut þó hann væri annar en fólk kynni að ætla sagði fyrrverandi formaður Vinnuveitendasambandsins.

Þjóðarsáttin sem náðist 1990 um breyttar áherslur í kjarasamningum til að ná niður verðbólgunni var rædd á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í dag. Þar var meðal annars skoðað hvernig samkomulag hefði náðst um þjóðarsátt og rætt hverjir hefðu ráðið mestu um hvernig til tókst.

Fyrst rætt um „þjóðarsátt" 1990
Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands, fór yfir bakgrunn og tilurð þjóðarsáttarinnar auk þess hver ætti heiðurinn af henni. Hann ræddi glímu Íslendinga við verðbólgu um árabil og sagði að fyrst hefði verið rætt um þjóðarsátt í núverandi skilningi í leiðara í Morgunblaðinu árið 1978. Þá hefði verið rædd nauðsyn þess að taka höndum saman um að kveða niður verðbólguna.

Guðni ræddi meðal annars hvers vegna þjóðarsátt hefði náðst 1990 en ekki fyrr eða síðar. Hann sagði að forsenda þjóðarsáttarinnar hefði verið sú mikla verðbólga sem ríkti árin á undan og lærdómar sem menn hefðu dregið af víxlverkun kauphækkana og gengisfellinga.

Guðni vísaði til deilna um hverjir ættu heiðurinn af þjóðarsáttarsamningum eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseta – og fjármálaráðherra á tímum þjóðarsáttar - sagði þegar Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra á tímum þjóðarsáttarinnar, varð áttræður að Steingrímur hefði átt stóran hlut í tilurð þjóðarsáttarinnar en hefði leyft forystumönnum launafólks og atvinnurekenda að njóta sviðsins.

Guðni Th. Jóhannesson við ræðupúltið. RÚV-mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson.

Búnir að læra af reynslunni
Guðni sagði að ríkisstjórn hefði ekki átt frumkvæði að þjóðarsáttinni, heldur hefði fjármálaráðherra hennar neyðst til að svíkja samning sem hann hefði sjálfur gert við opinbera starfsmenn tæpu ári áður.

„Þjóðarsáttin náðist vegna þess að Einar Oddur, Gvendur jaki og fleiri, voru búnir að læra af reynslunni," sagði Guðni og bætti við að honum lægi við að segja það þyrfti dimmraddaðan verkalýðsleiðtoga og forystumann atvinnurekenda frá Vestfjörðum til að ná saman um þjóðarsátt. Guðni sagði að fleira hefði þó þurft til að þetta gengi eftir. Þannig hefði þjóðarsátt ekki heppnast ef stjórnvöld hefðu ekki stutt hana. Einnig hefði verið mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn sem þá var í stjórnarandstöðu og Morgunblaðið, öflugasta blað landsins á þessum tíma, hefðu ekki barist gegn þjóðarsátt. En þrátt fyrir þetta hefði getað brugðið til beggja vona og mikilvægt að traust ríkti milli viðsemjenda. „Allir eiga því sinn heiður."

PR-maður og vinnumaurar
Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sem vann hjá Vinnuveitendasambandinu á sínum tíma sagði að Einar Oddur hefði verið PR-maður samninganna, vinnumaurarnir hefðu verið Þórarinn V. Þórarinsson og Ásmundur Stefánsson sem hefðu lagt drögin að þjóðarsáttinni. Hannes tók fram að með þessu vildi hann ekki gera lítið úr framlagi Einars Odds, sem hefði selt samningana, heldur halda til haga verkum annarra sem áttu mikinn hlut í þjóðarsáttarsamningunum.

Hluti fundarmanna. RÚV-mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson.

Þórarinn V. Þórarinsson, formaður Vinnuveitendasambandsins, á tíma þjóðarsáttar sagði að menn skyldu ekki vanmeta þátt núverandi forseta, þáverandi fjármálaráðherra. Ólafur Ragnar hefði gert fullkomlega galna samninga við BSRB og BHM árið áður. Þetta hefði gefið atvinnurekendum og ASÍ færi á að ganga inn í stjórnarráðið og segja að erfitt yrði að ná samningum. Niðurstaðan hefði verið samkomulag við ríkisstjórnina um að lækka gengið um 2,25 á mánuði fram í nóvember. „Þegar komið var fram í desember var samkeppnisstaða útflutningsgreinanna orðin bærileg eftir þetta." Þannig hefði Ólafur Ragnar átt sinn þátt í þjóðarsáttinni en þó með örlítið öðruvísi hætti en talað hefði verið um.

[email protected]