Höfum litlar áhyggjur af loftslagsbreytingum

18.11.2018 - 18:54
Mynd með færslu
Myndin er úr safni. Mynd: Pexels
Þrír af hverjum fjórum Íslendingum eru sannfærðir um að loftslag sé að breytast, sem er mun hærra hlutfall en annars staðar á Norðurlöndum. Þetta kemur fram í viðamikilli könnun meðal Evrópuþjóða. Lektor í mannfræði segir að Íslendingar mæti loftslagsbreytingum af æðruleysi, enda hafa aðeins þrjátíu og tvö prósent Íslendinga teljanlegar áhyggjur af loftslagsbreytingum.

Aðeins Portúgalar og Spánverjar eru sannfærðari en Íslendingar um að loftslagsbreytingar séu að eiga sér stað af þeim tuttugu og þremur þjóðum sem tóku þátt í könnun um lífsviðhorf Evrópubúa, European Social Survey. 

Samkvæmt könnuninni eru Íslendingar miklu frekar sannfærðir um að loftslag sé að breytast en hafa aðeins ögn meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum en aðrir Norðurlandabúar. Íslendingar finna hins vegar síður til persónulegrar ábyrgðar en einungis Norðmenn finna til minni ábyrgðar en Íslendingar, séu Norðurlandaþjóðirnar bornar saman.

Mætum breytingunum af æðruleysi

„Áhyggjur væri kannski eitthvað sem gæfi fólki kraft til að gera eitthvað í málunum. Við erum náttúrulega rík og við vitum að við eigum mörg tól og tæki til að takast á við það sem á dynur. Kannski treystum við því líka að tæknin muni bjarga okkur,“ segir Helga Ögmundardóttir, lektor í mannfræði við Háskóla Íslands. Hún var ein þeirra sem kynnti niðurstöður könnunarinnar á málþingi á föstudag. „Við erum kannski líka bara æðrulaus, það hljómar mjög vel. Látum þetta bara gerast og þá tökum við á því þegar þar að kemur. Þetta reddast,“ segir Helga létt í bragði.

Meðtökum ekki alvarleika stöðunnar

Þótt fólk viti af hlýnun jarðar meðtekur almenningur alvarleika málsins ekki tilfinningalega, segir Helga. „Það hefur sýnt sig í rannsóknum að þekking sem slík á staðreyndum er ekki „mótíverandi“ hvað varðar aðgerðir, breytta hegðun, gildi og slíkt,“ segir hún. „Það þarf að gera breytingar að einhverju sem fólk sér sem móralska skyldu að gera eitthvað, til dæmis eitthvað sem því þykir vænt um.“ Sú umræða sé nú í gangi meðal fræðimanna. „Hvernig gerum við þetta að raunverulega persónulegri ábyrgð?“

Mynd með færslu
 Mynd:
Helga segir að almenningur meðtaki ekki alvarleika málsins.
Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi