Höfnuðu milljarða hjálparaðstoð

23.08.2018 - 09:10
Erlent · Hamfarir · Asía · Indland
epa06958274 Indian people use a boat to reach a safer place in a flooded area of Kochi, Kerala state, India, 19 August 2018. The Indian state of Kerala has been hit by heavy rains that caused floods and reportedly killed at least 300 people.  EPA-EFE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Kerala-héraði á Indlandi eru fokreið út í ríkisstjórn landsins eftir að hún hafnaði 100 milljón dollara hjálparframlagi frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum vegna flóða í Kerala, sem kostað hafa í það minnsta 420 manns lífið.

Talið er að meira en 1,3 milljónir manna hafi þurft að flýja heimili sín vegna flóðanna sem hófust fyrr í mánuðinum og hefst fólkið við í 3.300 flóttamannabúðum. Meira en 10 þúsund kílómetrar af vegi hafa skemmst og milli 20 til 50 þúsund heimili.

Stjórnvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum réttu fram hjálparhönd og buðust til að veita Kerala-héraði 100 milljón dollara hjálparaðstoð, sem nemur tæpum 11 milljarða króna. Talið er að um þrjár milljónir Indverja búi í furstadæmunum og því mikil tengsl milli ríkjanna, auk þess er stærstur hluti íbúa Kerala múslimar líkt og flestir íbúa furstadæmanna.

Indversk yfirvöld voru ekki reiðubúin til að taka við þessari rausnarlegu gjöf og segja henni hafnað í samræmi við stefnu stjórnvalda, um að útvega fé til hjálparstarfs innanlands og taka ekki við fé erlendis frá. Vilji ríkið eða erlendar stofnanir gefa fé til hjálparstarfs í Kerala sé hægt að gera það gegnum fólk af indverskum uppruna og indversk samtök.

Eins og gefur að skilja eru yfirvöld í Kerala ekki par ánægð með þetta og segja að stjórnvöl eigi þá að reiða fram sömu upphæð og Sameinuðu arabísku furstadæmin buðu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stjórnvöld í Nýju Delí neita að taka við erlendum hjálparfé. Árið 2004 skall gríðarstór flóðbylgja á landinu og tæplega 170 þúsund manns létust en indversk yfirvöld afþökkuðu erlenda neyðaraðstoð. Sérfræðingar segja að það geri þau til að sýna umheiminum að Indverjar geti sjálfir tekist á við neyðarástand.

Upphæðin sem Sameinuðu arabísku furstadæmin buðu er engu að síður þremur milljónum dollurum hærri en sú sem yfirvöld hafa sjálf reitt fram til neyðaraðstoðar, enn sem komið er. Talið er að skemmdir af völdum flóðanna nemi meira en þremur milljörðum dollara.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi