Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hófleg bjartsýni eftir leiðtogafund

Mynd: AP / AP
Hófleg bjartsýni og varkárni einkennir viðbrögð við leiðtogafundi Bandaríkjanna og Norður-Kóreu, og samkomulagi þeirra um bætt samskipti og kjarnorkuvopnalausan Kóreuskaga.

Samkomulagi fagnað en hófleg bjartsýni

Víða um heim hafa ráðamenn fagnað fundi leiðtoga Bandaríkjanna og Norður-Kóreu og samkomulaginu sem þeir undirrituðu. Viðbrögðin einkennast þó af hóflegri bjartsýni og nokkurri varfærni.

Hafa áður lofað öllu fögru

Margir hafa bent á að Norður-Kóreumenn hafi margoft áður lofað öllu fögru og ekki staðið við þau loforð. Þeirra á meðal er Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar. Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði fundinn staðfesta nauðsyn þess að andstæðingar ræddu saman um deilumál sín.

Suður-Kóreumenn vongóðir

Í Suður-Kóreu var fylgst grannt með fundinum í Singapúr. Ráðamenn fögnuðu samkomulaginu sem undirritað var í Singapúr. Milljónir Suður-Kóreumanna eiga ættingja norðan landamæranna, fólk sem þeir hafa ekkert frétt af í meira en 60 ár. Yoon Bok-Ja, sem rekur veitingastað nærri landamærum ríkjanna, sagði í viðtali við danska ríkissjónvarpið DR að hún vissi ekkert um ættingja sína norðan landamærann.

Japanar styðja samkomulagið

Japanar hafa haft miklar áhyggjur af vopnaskaki á Kóreuskaganum. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sagði í dag að hann fagnaði árangrinum sem hefði náðst og því að Kim Jong-un hefði lýst vilja til að eyða kjarnorkuvopnum sínum.