Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Höfðar mál vegna pyntinga

20.06.2012 - 22:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslensk stjórnvöld beittu íranskan flóttamann meðferð sem jafnast á við pyntingar eða ómannlega og vanvirðandi meðferð, segir Katrín Oddsdóttir, lögmaður mannsins. Hann hafi verið sendur í hörmulegar aðstæður og haldið lengi í óvissu án sæmandi læknisaðstoðar. Höfða á skaðabótamál á hendur ríkinu.

Kom frá Grikklandi árið 2009

Mohammad Askarpour, 41 árs frá Íran, kom til Íslands árið 2009 og sótti um hæli. Útlendingastofnun sendi hann til Grikklands, þaðan sem hann kom. Stofnunin var gerð afturreka með þá ákvörðun, þar sem aðstæðurnar í flóttamannabúðum þar eru alræmdar og ómannsæmandi. Þó var hann þar við ömurlegar aðstæður í rúmt ár áður en hann var fluttur hingað til lands aftur.

Hefur beðið svars í þrjú ár

Nú, þremur árum eftir að hann sótti um hæli bíður hann enn svars. Heilsu hans hrakar ört, og nú er svo komið að hann er hættur að nærast, sefur ekki og er haldinn ofsakvíða. Hann liggur á sjúkrahúsi þungt haldinn á líkama og geði og í mikilli sjálfsvígshættu að mati fagmanna. Katrín segir auðvitað marga samverkandi þætti valda því en hún vill meina og leitast við að sanna að einna þyngst vegi löng bið og endalaus óvissa.

Sálfræðiaðstoð seint

Í gögnum málsins segir meðal annars að Askarpour hafi  fengið sálfræðiaðstoð seint. Katrín telur ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu ástæðu þess  að  hann er á geðdeild í dag. Slæmri sýkingu í ennisholum sem sem olli miklum höfuðverkjum hafi heldur ekki verið sinnt, því það taldist ekki lífsnauðsynlegt.

„Hann hefur ekki fengið fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, hann hefur ekki fengið það sem Íslendingar álíta algjör lágmarksréttindi til að geta lifað. Hann er álitinn einhvers konar annars flokks manneskja í okkar samfélagi,“ segir Katrín.

Lögsækir ríkið fyrir pyntingar

Katrín segir að Askarpour muni aldrei ná sér að fullu. Því verði höfðað mál gegn íslenska ríkinu vegna þess tjóns sem ómannleg og vanvirðandi meðferð hafi valdið. Umsókn um gjafsókn hefur verið lögð fram. 
„Það er náttúrulega algjörlega ömurlegt að sækja íslenska ríkið fyrir pyntingar. Að íslensk stjórnsýsla sé ekki betur úr garði gerð en að við þurfum að fara í mál gegn íslenska ríkinu til að ná eyrum yfirvalda almennnilega. Að það sé ekki nóg að fyrir liggi að manneskjan sé svona illa haldin. Að henni sé bara einfaldlega rétt hjálparhönd, áður en til þessa þurfi að grípa,“ segir Katrín.