Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Höfðar mál vegna ójafnræðis

Mynd með færslu
Freyja Haraldsdóttir  Mynd: RÚV
Freyja Haraldsdóttir, fyrrum þingmaður Bjartrar framtíðar, hefur höfðað mál á hendur Barnaverndarstofu. Málið er höfðað á þeim forsendum að jafnræðis hafi ekki verið gætt við meðferð umsóknar hennar um að taka barn í fóstur.

Greint var frá málinu í Fréttablaðinu í morgun. Freyja sótti um að verða fósturforeldri og fékk í kjölfarið jákvæða umsögn frá Fjölskylduráði Garðabæjar. Að sögn Sigrúnar Ingibjargar Gísladóttur, lögmanns Freyju, var Freyja metin hæf, af ráðinu, til að verða fósturforeldri. „Undir venjulegum kringumstæðum er næsta skref að umsækjandi fari á námskeið þar sem fram fer frekara mat á hæfni. Þar er metið hvort viðkomandi getið annast börn almennt eða tiltekinn hóp, til dæmis á vissum aldri. Í máli Freyju var umsókninni hafnað áður en að því kom,“ segir Sigrún. „Við teljum að hún hafi ekki farið í gegnum sama ferli og aðrir.“

Málið snúist því ekki um það hvort umsókn Freyju um að verða fósturforeldri hafi verið samþykkt eða ekki, heldur um það hvort jafnræðis hafi verið gætt í umsóknarferlinu. Málið er komið til Héraðsdóms Reykjavíkur og er á fyrstu stigum þar.

Telur málsmeðferðina vandaða

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, kveðst telja að farið hafi verið að lögum og reglum. „Sérstaklega var tekið mið af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og barnaverndarlögum. Málsmeðferðin hefur verið afar vönduð og sérfræðiálita var leitað víða. Umsókn hennar var sýnd full virðing,“ segir Bragi.

Samningur Sameinuðu þjóðanna hjálpi til við túlkun laga

Daníel Isebarn Ágústsson, lögfræðingur Öryrkjabandalags Íslands, bendir á að í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks séu ákvæði um rétt til fjölskyldulífs. Þar segir að aðildarríki samningsins skuli gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðu fólki í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum, á sama hátt og gildir um aðra. „Samningurinn á að hjálpa til við túlkun á íslenskum lögum. Hann hefur verið fullgildur hér á landi en því miður ekki lögfestur. Því er ekki búið að aðlaga íslenskt réttarumhverfi að honum en ef um opið og almennt ákvæði laga er að ræða þá ætti að nota samninginn til að túlka það. Túlka á íslensk ákvæði í samræmi við samninginn.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir