Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Höfða til samvisku verktaka í Skuggahverfi

18.03.2014 - 18:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Meirihlutinn í umhverfis og skipulagsráði Reykjavíkurborgar lét bóka á fundi ráðsins að skipulagsfulltrúa yrði falið að hefja viðræður við verktaka sem ætla að reisa nítján hæða turn í Skuggahverfinu. Skipulagsfulltrúa er ætlað að höfða til samviksku þeirra vegna gagnrýni á bygginguna.

Umræddur turn, hefur verið harðlega gagnrýndur að undanförnu. Hann er sagður eyðileggja dýrmætt útsýni og Páll Hjaltason, formaður umhverfis - og skipulagsráðs, sagði háhýsin í miðborginni vera minnisvarða um góðærisbjartsýnina sem ríkti á árunum fyrir hrun.

Á það hefur þó verið bent að allir flokkar hafi samþykkt þetta háhýsi, engin athugasemd hafi borist frá íbúum og Páll sagði í fréttum RÚV að það yrði mjög kostnaðarsamt að snúa þessari ákvörðun við - myndi jafnvel kosta borgina milljarða.

Á fundi umhverfis - og skipulagsráðs samþykkti meirihlutinn bókun ásamt fulltrúa VG þar sem meðal annars kemur fram að deiliskipulag Skuggahverfis sé barn síns tíma. Turninn eigi eftir að hafa áhrif á veðurfar, útsýni og ásynd borgarinnar og skerði mikilvægan sjónás norður Frakkastíg.

Jafnframt segir í bókuninni að skipulagsfulltrúa verði falið að hefja viðræður við verktaka og höfða til samvisku þeirra „vegna framkominnar gagnrýni og breyttrar stefnu borgaryfirvalda frá þeim tíma sem skipulagið var samþykkt.“

Skorað er á Alþingi að setja fyrningarákvæði í skipulagslög þannig að hægt verði að endurskoða skipulagsáætlanir ef framkvæmdir hefjast ekki innan ákveðins tíma.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tóku undir þetta  í bókun sinni  - þeir telja að deiliskipulag Skuggahverfis endurspegli sjónarmið í skipulagsmálum sem breyst hafi mikið á undanförnum árum. „Því var ekki mótmælt af borgarbúum á sínum tíma en víst má telja að viðbrögðin yrðu allt önnur nú,“ segir í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

[email protected]