Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hnýtir í Össur - „Ætti að kynna sér málin“

09.10.2015 - 10:12
Mynd með færslu
Ragnheiður Elín kynnir nýjan Vegvísi í ferðaþjónustu í Hörpu. Mynd: RÚV
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, hnýtir í Össur Skarphéðinsson, þingmann Samfylkingarinnar, og segir að hann eigi að kynna sér málin áður en hann byrji að gaspra. Tilefnið eru ummæli Össurar sem hann lét falla á Facebook-síðu sinni um nýja Stjórnstöð ferðamála.

Össur skrifaði á Facebook-síðu sinni á fimmtudag að það hefði verið aðdáunarvert hvernig Ragnheiður Elín næði að „brillera viku eftir viku“. 

„Sérstakur brilljans“

Það er aðdáunarvert hvernig Ragnheiður Elín ferðamálaráðherra nær að brillera viku eftir viku. Það var tær snilld hjá...

Posted by Össur Skarphéðinsson on 7. október 2015

Össur segir að það hefði verið tær snilld hjá henni að leysa vandamál ferðaþjónustunnar í eitt skipti fyrir öll með því að búa til nýja ríkisstofnun, Stjórnstöð ferðamála. „Það þarf sérstakan brilljans til að koma auga á að einfaldasta lausnin var vitaskuld að koma á fót nýrri stofnun við hliðina á Ferðamálastofu, sem Ragnheiður stýrir hvort eð er líka.“

Össur „kannski með smá móral“ 

Ragnheiður svarar þessari gagnrýni þingmannsins fullum hálsi á Facebook-síðu sinni. „Ég veit að það er til mikils að ætlast að Össur Skarphéðinsson kynni sér einhvern tímann málin áður en hann byrjar að gaspra.“

Hún segir Stjórnstöð ferðamála ekki nýja stofnun heldur samráðsvettvang. „Honum til varnar þá er hann kannski með smá móral yfir því að hafa ekki gengið betur í þessi verk þegar hann bar ábyrgð á málaflokknum - og þá finnst honum auðveldara að draga athyglina frá því verkleysi með því að hjóla í mig. Hann um það,“ skrifar ráðherrann.

Ég veit að það er til mikils að ætlast að Össur Skarphéðinsson kynni sér einhvern tímann málin áður en hann byrjar að gaspra. En ef hann hefði gert það þá hefði hann nefnilega séð að þarna er ekki verið að setja á laggirnar nýja stofnun, heldur samráðsvettvang þar sem helstu ábyrgðaraðilar ferðamálanna á vettvangi ríkis, sveitarfélaganna og greinarinnar sjálfrar hafa tekið höndum saman um að vinna eftir þeim vegvísi sem unninn hefur verið í góðu samstarfi þessara aðila.

Honum til varnar þá er hann kannski með smá móral yfir því að hafa ekki gengið betur í þessi verk þegar hann bar ábyrgð á málaflokknum - og þá finnst honum auðveldara að draga athyglina frá því verkleysi með því að hjóla í mig. Hann um það.
(Facebook-síða Ragnheiðar Elínar)

Ráðherranm segir í athugasemdum við færslu sína að frumkvæði að ráðningu Harðar Þórhallssonar sem framkvæmdastjóra Stjórnstöðvarinnar hafi komið frá Samtökum ferðaþjónustunnar. 

Í framboði fyrir Alþýðubandalagið 1987

Sú ráðning hefur verið gagnrýnd - meðal annars af Katrínu Júlíusdóttur, fyrrverandi iðnaðarráðherra, sem sagði: „Þetta er eitthvað sem ég tel að hafi verið afar misráðið að gera með þessum hætti því við þurfum alltaf að stíga varlega til jarðar þegar við erum að fara með skattfé“. 

 

Ragnheiður Elín upplýsir enn fremur að pólitískar skoðanir Harðar hafi aldrei verið til umræðu í ráðningarferlinu - Stundin fjallaði í gær um tengsl framkvæmdastjórans við Sjálfstæðisflokkinn. „Ef það hefði verið gert hefði ég sennilega verið upplýst um að hann var í framboði fyrir Alþýðubandalagið á Reykjanesi árið 1987,“ skrifar iðnaðarráðherra.

Hörður skipaði 14. sæti á lista Alþýðubandalagsins fyrir þingkosningarnar 1987. Geir Gunnarsson, þingmaður, leiddi listann, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, var í öðru sæti.

Steindauður náttúrupassi

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Össur gagnrýnir Ragnheiði Elínu. Í færslu sem birtist á Facebook-síðu hans í júní sagði hann að eina afrek ráðherrans væri hinn steindauði náttúrupassi „sem allir, jafnt hennar flokkur sem ferðaþjónustan, skutu á bólakaf enda alvitlausasta hugmynd sem fram hefur komið í áratugi. - Síðan hefur varla til ráðherrans spurst.“

„Hegðunarvandamál“ Ragnheiðar Elínar

Þráinn Bertelsson segir að ráðherrar af kalíber Ragnheiðar Elínar séu sjaldgæfir. ...

Posted by Össur Skarphéðinsson on 21. júlí 2015