Hnotskurn: Taylor Swift í uppáhaldi hjá nýnasistum

Mynd: Look What You Made Me Do / Look What You Made Me Do

Hnotskurn: Taylor Swift í uppáhaldi hjá nýnasistum

15.11.2017 - 14:44
„Taylor Swift er hreinræktuð arísk gyðja, eins og klippt út úr klassískri grískri ljóðlist. Aþena endurfædd.“ Þetta sagði Andre Anglin, ritstjóri nýnasista-vefritsins Daily Stormer, í viðtali við Vice í maí árið 2016.

Innslagið birtist fyrst í Lestinni en einnig í nýjasta þætti Hnotskurnar. Hlusta má á þáttinn í heild sinni hér. 

Bandarískir nýnasistar og hvítir þjóðernissinnar sjá poppstjörnuna í dýrðarljóma, sem boðbera skilaboða um yfirburði hvíta mannsins. Taylor Swift er ein stærsta poppstjarna í heimi. Árið 2006, þá aðeins sautján ára gömul, sló hún í gegn með sinni fyrstu plötu og hefur á rúmlega tíu ára ferli meðal annars hlotið 10 Grammy-verðlaun, 21 verðlaunagrip á Billboard tónlistarverðlaununum og verið útnefnd sem ein af 100 bestu tónskáldum allra tíma hjá tímaritinu Rolling Stone. Tuttugu og sjö ára gömul hafði hún selt yfir 40 milljónir platna, og var á meðal þeirra fimm listamanna í heiminum sem höfðu selt mest af tónlist í gegnum stafrænar leiðir.

Hún er risastjarna. En þetta hafa verið erfið undanfarin ár hjá Swift vegna stöðugra deilna við aðrar stjörnur, orðróm um ósannsögli og lygar. Grein Buzzfeed um það hvernig hún hefur byggt feril sinn á fórnarlambsleik vakti mikla athygli í byrjun árs. Taylor Swift hefur í huga margra farið úr því að vera hjartagull Bandaríkjanna yfir í að vera af mörgum frekar illa liðin, undirförul forréttindastelpa. Og svo bættust nasistarnir við.

Heldur upp merkjum sakleysis í iðnaði gegnsýrðum af saurlífi

Margir nýnasistar segja Swift ekki bara aríska gyðju, prótótýpu þess samfélags sem þeir vilja skapa, heldur telja þeir hana líka nasista í laumi. Í áðurnefndu viðtali við Vice segir Andre Anglin að Swift bíði aðeins þess tíma þegar Donald Trump skapi samfélag sem er nógu öruggt fyrir hana til að koma út úr skáp hugmyndafræðinnar, verði gefin syni Trumps og saman verði þau krýnd konungsfjölskylda Ameríku.

Daily Stormer hefur birt á þriðja tug greina um ágæti Swift, meðal annars að þrátt fyrir að skemmtanaiðnaðurinn sé gegnsýrður af saurlífi hafi henni tekist að halda uppi merkjum hreinleikans, sakleysi og kvenleikans. Á meðan aðrar stjörnur, á borð við Miley Cyrus hlaupi af sér hornin með lituðum karlmönnum, sé Taylor Swift heima að lesa Jane Austen.

Spilar fórnarlambsleikinn

Viðtalið birtist, eins og áður segir, í maí á síðasta ári. Vice tókst ekki að ná sambandi við talsmann Swift vegna ásakananna og önnur viðbrögð hennar við samskonar samlíkingum urðu engin.

Ekki fyrr en núna. Í september birtist grein á nánast óþekktri poppkúlturbloggsíðu um þessa dýrkun nýnasistanna á Swift. Í greininni er farið yfir lag af nýjustu plötu Swift sem kom út á föstudaginn síðastliðinn og heitir Reputation. Lagið heitir „Look what you made me do“ eða sjáðu hvað þú lést mig gera og spilar að miklu leyti sama fórnarlambsleikinn og áður hefur verið nefndur í þessum pistli. En bæði lagið og myndbandið þykja, samkvæmt greininni og nýnasistum, hafa lúmskan undirtón um yfirburði hvíta kynsins. 

Það er spurning hversu lúmskur undirtónninn er, en á einum stað í myndbandinu sést Swift þruma ræðu yfir hóp af vélrænum hvítum konum sem bókstaflega eru steyptar í sama mót. Andrúmsloftið minnir óþægilega á áróðurshátíðir þýska nasistaflokksins í seinna stríði, rauðklæddir veggir og Swift íklædd einhverskonar BDSM latex útgáfu af klæðnaði foringjans. Í myndböndum Swift þykir áberandi vöntun á hörundsdökku fólki, nema sem undirgefið skraut.

Önnur rýni í textann er kannski full langsótt. Á einum stað í laginu segir: „I don‘t like your kingdom keys. They once belonged to me. You asked for a place to sleep. Locked me out and threw a feast“  á íslensku: „Ég kann ekki að meta lyklana þína að konungsveldinu. Þeir tilheyrðu mér eitt sinn. Þú baðst um stað til að halla höfðinu en læstir mig úti og hélst veislu."
Textabrotið þykir undirstrika reiði hvítra rasista. Þeir hafi á einhvern hátt rétt blökkumanninum fingurinn en sá hafi gripið í allan handlegginn. Hvítir hafi orðið undir í kynþáttastríðinu. Sjónarmið sem stenst enga skoðun þegar rýnt er í tölur um það hverjir eiga enn mestan auð í heiminum, stýra fyrirtækjum Bandaríkjanna, stjórnmálum og þjóðfélagsumræðunni. Hvítir karlar.

Mynd með færslu
 Mynd: Look What You Made Me Do
Swift messar yfir vélkvennaher sínum í myndbandinu við Look What You Made Me Do.

Í greininni segir að það sé erfitt að trúa því að Swift hafi ekki áttað sig á því textinn hennar talaði beint inn í þennan þjóðernissinnaða rasistahóp. Og vissulega er hægt að taka undir að það sé sérstakt að rúmu ári eftir að ritstjóri helsta rasistatímarits Bandaríkjanna segir hana aríska gyðju sem hann tilbiðji skuli hún nota áberandi nasískt myndmál í tónlistarmyndbandi. Það er ekki beinlínis gert til að lækka hitann undir umræðunum.

Þetta er samt ekki í fyrsta skipti sem Taylor er sökuð um kynþáttahyggju. Árið 2014 gaf hún út lagið „Shake it off“ sem er sannarlega einn hennar stærsti smellur. Í myndbandinu leikur Taylor hvítu ballerínuna sem vill bara losna undan ströngum reglum dansins og kynna sér frjálslegri dansstíla. Þar hrista svartar konur rassinn fyrir Taylor í hinu að mörgu leyti umdeilda dansspori twerki, og eru að miklu leyti andlitslausar. Swift skríður einhvern veginn á milli lappa þeirra í senu sem þykir einfaldlega óþægileg sé mið tekið af stöðu svartra og hvítra í gegnum tíðina, og ofurkyngervingu svartra kvenna í amerískum poppkúltúr. Að öðru leyti er hvítt fólk nefnilega í miklum meirihluta myndbandsins.

En það var þessi grein á óþekktu bloggsíðunni, sem dró þessar ásakanir allar saman, sem var kornið sem fyllti mælinn hjá Taylor. Þrátt fyrir að greinin væri birt á vefriti sem svo gott sem enginn les og hefur ekkert vægi í umræðunni krafðist lögfræðingur poppstjörnunnar þess að greinin yrði fjarlægð því hún væri bæði særandi og ætti sér enga stoð í raunveruleikanum. Það var, að því er virðist, í fyrsta sinn sem Swift bregst við orðróminum eða samlíkingunni við hitt hægrið í Bandaríkjunum og er mjög ólíkt viðbrögðum annarra tónlistarmanna.

Í pistli í Lestinni á Rás 1 og á menningarvef RÚV í haust, sem ber yfirskriftina Hitt hægrið, poppmenning og nasistadiskó, fór Davíð Roach Gunnarsson yfir þau listaverk og minni úr poppmenningu samtímans sem rasistar í Bandaríkjunum hafa tekið og gert að sínum. Þar kemur fram að afkomendur tónlistarmannsins Johnny Cash hafi gefið frá sér yfirlýsingu þegar nýnastisti í Charlottesville óeirðunum birtist í stuttermabol merktum söngvaranum.

Hljómsveitin Depeche Mode brást fljótt við þegar annar ritstjóri rasistatímarits sagði hljómsveitina opinbera hljómsveit hins hægrisins. Söngvari Depeche Mode úthúðaði rasistanum í fjölmiðlum í kjölfarið. Og fjöldinn allur af tónlistarmönnum bannar Donald Trump að nota tónlist sína á kosningafundum sínum, þar á meðal the Rolling Stones, Elton John og Queen. Þveröfugt við fyrstu viðbrögð Taylor Swift.

Umræðan skyggir á nýju plötuna

Greinarhöfundurinn sem sendi Swift fram af brúninni hafði samband við ACLU, hið ameríska samband um borgaraleg réttindi, sem ályktaði að greinin um nasísk minni í lögum Taylor Swift væri varin af tjáningarfrelsi stjórnarskrárinnar. Og skyndilega voru allir búnir að lesa greinina, sem annars hefði enga athygli fengið, og helstu miðlar heims hafa fjallað um þessa mögulegu tengingu Taylor Swift við þjóðernispopúlisma sem fer vaxandi dag frá degi í Bandaríkjunum. Umræðan skyggir á útgáfu nýjustu plötu hennar en gæti jafnframt tryggt henni meiri spilun en annars hefði verið. Nú fyrst verða þeir forvitnir sem aldrei hefðu talist til aðdáenda söngkonunnar.