Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hnísill, naglús og iðraormur í rjúpunni

22.11.2016 - 13:48
Mynd með færslu
 Mynd: Daníel Bergmann
17 tegundir sníkjudýra herja á íslensku rjúpuna, sum henni að meinalausu en önnur eru meinbæg. Meðal sníkjudýra sem hafa slæm áhrif á afkomu rjúpunnar eru hnísill, naglús og iðraormur.

Rannsókn sem tekur 12 ár

Þetta kemur fram á vef Náttúrufræðistofnunar þar sem vitnað er í grein í fræðiritinu PLOS One. Höfundar greinarinnar eru Ute Stenkewitz, Ólafur K. Nielsen, Karl Skírnisson og Gunnar Stefánsson. Greinin byggir á rannsókn á tengslum heilbrigðis og stofnbreytinga hjá rjúpum sem staðið hefur yfir á Norðausturlandi síðan 2006 og lýkur næsta haust.

Náttúrufræðistofnun stendur að rannsókninni í samvinnu við fræðimenn frá sex innlendum og erlendum vísindastofnunum og skólum.  Á hverju ári er 100 rjúpum safnað í fyrstu viku október og gerðar mælingar á ýmsum þáttum sem lýsa heilbrigði fuglanna.

17 sníkjudýr í íslensku rjúpunni

Á vef Náttúrufræðistofnunar segir að stærð íslenska rjúpnastofnsins sé mjög breytileg. Stofninn rísi og hnígi og að jafnaði hafa verið um 10–12 ár á milli hámarksára. Vitað er að fálkinn hefur áhrif á stofnsveifluna en fleira komi örugglega til, eins og fæða og heilbrigði fuglanna. Í grein fjórmenninganna kemur fram að íslenska rjúpan er athvarf og heimili 17 tegunda sníkjudýra, sjö innri sníkjudýra sem flest lifa í meltingarvegi og 10 tegunda ytri sníkjudýra.

Hafa áhrif á þrótt, frjósemi og afföll

Nær allar rjúpur bera einhver sníkjudýr. Beint samband reynist á milli affalla, frjósemi og holdafars og smittíðni hnísilsins Eimeria muta. Hníslar eru einfrumungar, lifa í slímhúð meltingarvegar og valda hníslasótt sem dregur þrótt úr sýktum fuglum eða drepur þá. Önnur sníkjudýr sem virtust hafa neikvæð áhrif á afkomu rjúpunnar voru naglúsin Amyrsidea lagopi. Hún truflar frjósemi rjúpunnar. Þá hefur iðraormurinn Capillaria caudinflata áhrif á afföll ungfugla.

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV