Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

HM í Rússlandi, peningar, spilling og dóp

Mynd: Tomasz Kolodziejski / RÚV

HM í Rússlandi, peningar, spilling og dóp

17.11.2017 - 16:00
Ísland verður með á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Rússlandi næsta sumar. Rússar leggja mikið upp úr því að mótið verði landi og þjóð til sóma en ýmislegt hefur verið umdeilt í tengslum við mótið. Kynþáttafordómar, mismunun, lyfjamisferli, Úkraínudeilan og spilling hafa verið nefnd til sögunnar. Dregið verður í riðla 1. desember.

Ákvörðun um að halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi árið 2018 var mjög umdeild og ekki síður það að halda keppnina í Katar árið 2022. Í báðum tilfellum hófst umsóknarferlið í janúar árið 2009. Upphaflega sóttu níu þjóðir um að halda keppnina árið 2018 en Mexíkó og Indónesía heltust fljótlega úr lestinni. Á næstu misserum hættu Ástralir, Japan og Bandaríkin við þátttöku og eftir stóðu fjórar umsóknir frá Evrópu, England, Rússland, Holland og Belgía í sameiningu og Portúgal og Spánn sömuleiðis saman. Tuttugu og tveir meðlimir framkvæmdanefndar Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA kusu á milli þessara fjögurra umsókna í Zürich í Sviss í desember árið 2010. Rússland fékk flest atkvæði í fyrstu umferð en England fæst og var því úr leik. Í annarri umferð fékk Rússland tilskilinn meirihluta atkvæða og því réttinn til að halda heimsmeistarmótið í knattspyrnu árið 2018.

epa02476780 FIFA President Joseph S. Blatter (L) with Russian First Deputy Prime Minister Igor Shuvalov (R) present the World Cup trophy after Russia was announced as host of the 2018 Soccer World Cup during the FIFA 2018 and 2022 World Cup Bid
 Mynd: EPA - KEYSTONE

Ákvörðunin um að velja Rússland til að halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu hefur verið umdeild, rétt eins og þegar Rússland var valið til að halda vetrarólympíuleikana árið 2014. Kynþáttafordómar í Rússlandi og mismunun í garð hinsegins fólks hefur verið gagnrýnt. Víðtækt lyfjamisferli í rússnesku íþróttalífi hefur vakið mikla athygli en rússneskir íþróttamenn hafa þurft að skila 35 ólympíuverðlaunum vegna lyfjamisferlis, þrefallt fleiri en nokkur önnur þjóð. Framferði Rússlands í Úkraínu hefur einnig leitt til krafna um að heimsmeistarakeppnin verði tekin af Rússum, einkum eftir innlimun Krímskagans. Þessar kröfur urðu háværar eftir að malasísk flugvél var skotin niður í Úkraínu 17. júlí 2014 en Rússar voru sakaðir um ódæðið. Sepp Blatter, þáverandi framkvæmdastjóri Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, hafnaði alla tíð slíkum hugmyndum. Ásakanir um spillingu náðu hámarki í rannsókn á spillingu í tengslum við umsóknarferlið sem leiddi til þess að Rússland var valið til að halda HM. Vladimir Putin, forseti Rússlands hefur sagt að rannsóknin hafi verið liður í tilraun Bandaríkjamanna til að koma Sepp Blatter frá völdum, vegna stuðnings hans við Rússa.

Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski - RÚV

Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA lét taka saman skýrslu um mögulega spillingu vegna heimsmeistaramótanna í Rússlandi 2018 og Katar 2022. Skýrslan var 350 blaðsíður en FIFA birti aðeins 42 síðna útdrátt í nóvember 2014. Þar var bæði Rússland og Katar hreinsað af ásökunum um spillingu í tengslum við þessar ákvarðanir. Skýrslan eða útdrátturinn lægði ekki óánægjuölduna. Ásakanir um spillingu hafa lifað góðu lífi og reglulega hafa komið fram kröfur um að Rússar fái ekki að halda keppnina.

Mynd með færslu
 Mynd: www.youtube.com

Þetta verður í fyrsta sinn í tólf ár sem keppnin verður í Evrópu. Þrjátíu og tvær þjóðir taka þátt í lokakeppninni í Rússlandi, þrjátíu og ein þjóð sem fóru áfram eftir undankeppnina og gestgjafar Rússlands. Ronaldo, Messi og Aron Einar verða allir með en það kemur ekki í ljós fyrr en 1. desember hvernig riðlarnir verða skipaðir og í hvaða borgum liðin spila. Mótið hefst fjórtánda júní og líkur með úrslitaleiknum í Moskvu fimmtánda júlí. Leiknir verða 64 á 12 íþróttavöllum í 11 mismunandi borgum. Upphaflega áttu vellirnir að vera 16 í 13 mismunandi borgum. Þrettán leikvanga átti að reisa frá grunni en endurnýja þrjá. Völlunum fækkaði smám saman í ferlinu og niðurstaðan varð 12 leikvellir í 11 borgum.

epa05419250 Cristiano Ronaldo of Portugal reacts after a tackle during the UEFA EURO 2016 Final match between Portugal and France at Stade de France in Saint-Denis, France, 10 July 2016.
 Mynd: EPA

Knattspyrnuvellirnir hafa venju samkvæmt reynst mun dýrari en áætlað var. Vellirnir á heimsmeistaramótinu í Brasilíu árið 2014 reyndust þrefallt dýrari en til stóð og þannig hefur það alltaf verið á stórmótum, hvort sem það er HM, EM, Ólympíuleikar eða annað. Í samantekt Íslandsbanka kemur fram að kostnaður við leikvanga í Rússlandi hafi aukist um 150 prósent, sé gert ráð fyrir veikingu rúblunnar. Völlurinn í Samara hefur farið 200 prósent fram úr áætlunum og völlurinn í Sochi um 270 prósent. Af þessum tólf völlum eru aðeins tveir endurbættir en 10 er reistir frá grunni. Kostnaður við leikvellina er ríflega 400 milljarðar íslenskra króna. Í Rússlandi og Katar eru allir vellirnir byggðir frá grunni eða mjög mikið endurbættir. Síðustu áratugi hefur þetta hlutfall verið 60 til 90 prósent. Eina undantekning er heimsmeistaramótið í Bandaríkjunum árið 1994 en þá voru engar eða lítilsháttar breytingar gerðar á þeim völlum sem fyrir hendi voru. Í Rússlandi er nýji völlurinn í Sánti Pétursborg langdýrastur.

epa06194139 FIFA President Gianni Infantino (L) and Russian President Vladimir Putin (C)attend the the FIFA World Cup Trophy Tour by Coca-Cola kick-off ceremony at the Luzhniki Stadium in Moscow, Russia, 09 September 2017. The Original Trophy will travel
 Mynd: AP Images - RÚV

Nokkuð ljóst er að heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu verður haldin í Rússlandi næsta sumar. Sterkustu þjóðir heims leiða þar saman hesta sína og stórstjörnur á borð við Messi og Ronaldo fara fyrir sínum liðum. Íslenska karlalandsliðið verður þar í fyrsta skipti á meðal þeirra stærstu.