Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hlýnun sjávar helsti áhrifavaldurinn - viðtal

27.01.2017 - 18:26
Mynd: RÚV / RÚV
Hlýnun sjávar norður af Íslandi er líklegasta ástæða þess að göngumynstur loðnu við landið hefur breyst mikið. Loðnan leitar nú ætis fjær landinu en áður og gengur seinna inn á hefbundin hrygningarsvæði undan Suðvesturlandi. Birkir Bárðarson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, segir fjármagn skorta til frekari rannsókna á líffræði loðnunnar. Það þurfi að gera meira en bara að mæla magn loðnu.

Umfangsmiklar rannsóknir á hrygningastofni loðnu nú í vetur hafa leitt í ljós að veiðistofninn er sá minnsti í mörg ár. Birkir hefur stýrt þessum rannsóknum og segir að náttúrulegar breytingar í hafinu séu mikil ógnun við loðnuna. „Það er augljóslega hlýnun í hafinu, ekki síst norður af landinu. Loðnan er fiskur sem hefur kjörhitastig við eina til þrjár gráður allavega á fæðugöngunni þannig að þessi hlýnun er líkleg til að hafa áhrif þarna.“

Og þetta segir hann að sé aðalástæðan, þó ýmislegt annað hafi áhrif. Meðal annars ágangur annarra og nýrra tegunda á loðnuslóðinni. „Það sem við höfum verið að sjá er að á fæðugöngunni hefur loðnan greinilega færst til vesturs meira inn á landgrunninn fyrir Grænland og eitthvað til norðurs líka. Á hrygningargöngunni erum við að sjá hana koma seinna inn á landgrunnið í það minnsta ganga seinna austur með landgrunninum fyrir Norðurlandi.“

Og sérfræðingar velti því nú fyrir sér hvaða áhrif þetta hafi á hrygningu loðnunnar á hefðbundnum svæðum fyrir suðvestan landið. Þeir viti að loðnan hrygni fyrir norðan Ísland, en vanti frekara mat á því. Og Birkir segir mjög nauðsynlegt að auka rannsóknir og gera meira en bara að mæla magn loðnunnar. Það þurfi að rannsaka líffræði hennar mun betur. Þarna skorti fjármagn. „Það eru breytingar að eiga sér stað þessi árin og það er óábyrgt að fylgjast ekki betur með því,“ segir Birkir. 

Hægt er að hlusta á ítarlegt viðtali við hann í spilaranum hér fyrir ofan.