Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hlýnun jarðar gæti aukið eldvirkni á Íslandi

23.11.2017 - 18:35
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Vísindamenn við Háskólann í Leeds telja líklegt að eldvirkni á Íslandi aukist vegna loftslagsbreytinga og hlýnunar jarðar. Þetta er niðurstaða rannsóknar þar sem tíðni eldgosa á Íslandi var borin saman við sögulega jökulþekju á landinu.

Niðurstaðan var sú að þegar miklir jöklar þöktu landið var eldvirkni lítil. Þegar jöklarnir hopuðu vegna hlýnandi loftslags jókst eldvirknin jafnt og þétt. Ástæðan virðist vera sú að þegar jöklarnir bráðna situr eðlilega minni þungi á yfirborði jarðar. Þetta getur haft áhrif á hve mikið af möttlinum bráðnar í iðrum jarðar, hve mikið hraun flæðir upp að jarðskorpunni og hve miklu hrauni skorpan getur haldið niðri.

„Hlýnun jarðar af mannavöldum er að valda mikilli bráðnun jökla á eldvirkum svæðum jarðarinnar. Á Íslandi hefur þetta leitt til tíðari eldgosa,“ segir Dr. Graeme Swindles, frá jarðfræðideild Háskólans í Leeds, í viðtali við vefritið Science Daily.

Í rannsókninni var hraun og aska í jarðlögum á Íslandi skoðuð. Samkvæmt niðurstöðunum var eldvirkni í lágmarki á Íslandi á þúsund ára tímabili, fyrir 4500 árum. Á sama tíma varð breyting á loftslagi á jörðinni sem olli því að jöklar stækkuðu á Íslandi.

Niðurstöðurnar sýna þó einnig að breytingar á eldvirkni verða ekki fyrr en um 600 árum eftir að loftslagið tekur breytingum. Það er því langur tími sem líður áður en áhrifa loftslagsbreytinga fer að gæta í eldvirkni.

Dr. Swindles telur að vegna áhrifa mannkyns á loftslagsbreytingar geti sá tími orðið styttri, þ.e. að eldvirkni á Íslandi verði fyrr fyrir áhrifum loftslagsbreytinga en ella. „En fortíðin sýnir að fleiri eldgosa getur verið að vænta á Íslandi í framtíðinni,“ segir hann.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV