Hlutu heiðursviðurkenningar í eðlisfræði

Mynd með færslu
 Mynd:

Hlutu heiðursviðurkenningar í eðlisfræði

14.07.2013 - 22:24
Tveir liðsmenn íslensku keppnissveitarinnar á Ólympíuleikunum í eðlisfræði hlutu heiðursviðurkenningu fyrir árangur sinn, en leikunum lauk í dag í Kaupmannahöfn.

Þeir sem hlutu viðurkenningar voru Pétur Rafn Bryde úr Borgarholtsskóla og Snorri Tómasson úr Menntaskólanum í Reykjavík. Auk þeirra skipuðu íslensku sveitina Davíð Jónsson, Jón Sölvi Snorrason og Tryggvi Kalman Jónsson, allir úr Menntaskólanum í Reykjavík.

Fararstjórar með liðinu voru eðlisfræðikennararnir Ingibjörg Haraldsdóttir frá Menntaskólanum í Kópavogi og Viðar Ágústsson frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði.

Kínverjar, Singaporar, Bandaríkjamenn og Indverjar stóðu sig best á leikunum.

Af norðurlandaþjóðunum stóðu Finnar sig best með einn keppanda í bronsflokknum og 4 keppendur með heiðursviðurkenningu, Danir fengu eitt brons og tvær heiðursviðurkenningar og Svíar fengu þrjár heiðursviðurkenningar. Íslendingar fengu tvær heiðursviðurkenningar en Norðmenn náðu ekki keppanda inn á verðlaunalistann.