Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hlustaði ekki á viðvaranir eigin sérfræðinga

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - RÚV
Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegsráðherra, lét viðvaranir sérfræðinga í ráðuneyti sínu sem vind um eyru þjóta þegar reglugerð um fyrirkomulag makrílveiða var ákveðin árið 2010. Hæstiréttur dæmdi fyrirkomulagið ólögmætt á dögunum og dæmdi ríkið bótaskylt gagnvart tveimur útgerðum sem gætu krafist milljarðaskaðabóta á grundvelli þessa.

Fréttablaðið greinir frá þessu. Í undirbúningsgögnum fyrir setningu reglugerðarinnar, sem blaðið hefur undir höndum, segja tveir sérfræðingar ráðuneytisins að mikilvægt sé, „að ráðherra sé ljóst að við setningu reglugerðar af þessu tagi er verið að teygja sig mjög langt við túlkun heimildar þeirrar sem ráðherra hefur skv. 4. gr. [úthafsveiðilaga]."

Í sama minnisblaði, sem er frá 2010, segja sérfræðingarnir skýrum orðum hverjar afleiðingar reglugerðarinnar geti orðið - nefnilega þær sem nú hafa komið á daginn. Orðrétt segja sérfræðingarnir: „Verði látið á það reyna hjá umboðsmanni Alþingis eða fyrir dómstólum er mjög líklegt að niðurstaðan verði sú að ráðherra hafi gengi lengra við setningu reglugerðar en lög heimila."

Fleiri ár og fleiri útgerðir fylgja í kjölfarið

Dómur hæstaréttar tekur einungis til tveggja útgerða og áranna 2011 til 2014. Árin þar á eftir munu verða skoðuð í framhaldinu, segir í dómnum. Þá íhuga fleiri útgerðir að sækja rétt sinn gagnvart ríkinu á grundvelli þessa dóms, enda fordæmisgefandi.

Jón Bjarnason sagði í viðtali við fréttastofu á dögunum að hann væri ósammála niðurstöðu Hæstaréttar. Sú niðurstaða var þó í öllum aðalatriðum sú sama og Umboðsmaður Alþingis komst að um sama mál fyrir þremur árum.