Hljómsveitin Radiohead komin til landsins

16.06.2016 - 11:00
epa03415355 Singer Thom Yorke of English band Radiohead performs with his group at the Wuhlheid, in Berlin, Germany, 29 September 2012.  EPA/Britta Pedersen
 Mynd: EPA - DPA
Enska rokkhljómsveitin Radiohead er komin til landsins, en hún heldur tónleika á Secret Solstice tónlistarhátíðinni annað kvöld. Hljómsveitin ferðaðist ekki öll saman til landsins, og hafa hljómsveitarmeðlimirnir því verið að tínast til Íslands undanfarna daga. Thom Yorke og félagar fóru saman út að borða í Reykjavík í gærkvöldi.

Tónleikar Radiohead annað kvöld fara fram í Laugardalshöll, en tónleikarinir eru langstærsta atriði tónlistarhátíðarinnar þetta árið. Mikil eftirvænting ríkir fyrir tónleikum sveitarinnar, sem sendi nýverið frá sér sína níundu hljóðversplötu, A Moon Shaped Pool

Hlið tónlistarhátíðarinnar í Laugardal opna klukkan fjögur í dag, og fyrstu listamennirnir stíga á stokk klukkutíma síðar. Að sögn Óskar Gunnarsdóttur, kynningarstjóra tónlistarhátíðarinnar, er búist við um fimmtán þúsund gestum á Secret Solstice í ár. Þá munu 177 listamenn troða upp á sjö sviðum vítt og breitt um svæðið.

Laugardalshöll tekur um 11.000 tónleikagestir, þannig að það er ef til vill viðbúið að færri komist á tónleika Radiohead en vilja. Hleypt verður inn í tónleikasalinn á meðan húsrúm leyfir. Ósk segir hins vegar að á sama tíma verði listamenn, sem höfði frekar til yngri kynslóðarinnar, með tónleika sem muni dreifa álaginu. „Radiohead-aðdáendur, mætið snemma!“ brýnir Ósk engu að síður fyrir áhugasömum.

Hún segir að undirbúningur fyrir hátíðina sé nú á lokastigi, þar sem 600 manns vinni baki brotnu við að hnýta síðustu hnútana. 

Tónleikar Radiohead í Laugardalshöll hefjast klukkan 22:00 annað kvöld, en íslenska hljómsveitin Fufanu hitar upp. „Við erum öll miklir aðdáendur Radiohead og því er eftirvæntingin mikil í okkar hópi,“ segir Ósk í samtali við fréttastofu. „Það er æðislegt að fá sveitina hingað til lands á þessum tímapunkti, en Íslendingar verða með þeim fyrstu til að heyra hana flytja efni af nýjustu plötunni á tónleikum.“

Secret Solstice tónlistarhátíðin stendur til 19. júní. 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi