Upptakan var hluti af rannsókn vegna ásökunar í garð Weinstein, í sambandi við kynferðislega áreitni, en það tiltekna mál var síðar látið niður falla. Á upptökunni má heyra fyrirsætu að nafni Ambra Battilana Gutierrez eiga samtal við Weinstein inni á hótelherbergi hans. Þá má heyra Weinstein reyna írekað að þvinga hana til þess að koma með sér inn á baðherbergi, og reynir hann að beita hana þrýstingi, segist vera meðal annars vera „frægur maður“ [e. „famous guy“] og sver við heiður barna sinna að hann muni ekkert gera til að skaða hana.
Sönnunargögnin lágu fyrir
Gutierrez ítrekar á upptökunni að hún vilji það ekki, hún hafi ekki áhuga og að sér líði mjög óþægilega. Hún spyr hann jafnframt hversvegna hann hafi káfað á brjóstinu á sér daginn áður, en hann svarar til að hann sé vanur slíku. Þá biður hann hana að staldra við í fimm mínútur, og eyðileggja ekki vináttu þeirra í fimm mínútur.
Ónafngreindur talsmaður Lögreglunnar í New York fullyrðir í samtali við The New Yorker að sönnunargögnin hafi verið til staðar á sínum tima, og segir meðal annars: „Þetta mál gerði mig reiðari en ég hélt að væri mögulegt, og ég hef starfað við þetta í langan tíma.“
Angelina Jolie meðal þolenda
Mál Weinstein náði hámæli í kjölfar úttektar The New York Times í síðustu viku, en í kjölfarið hefur fjöldi kvenna stigið fram. Í grein The New Yorker sem birtist í gær, stigu þrjár konur til viðbótar fram og sökuðu Weinstein um nauðgun, auk fjölda annara sem sakað hafa Weinstein um kynferðislega áreitni. Þá eru leikkonurnar Angelina Jolie og Gwyneth Paltrow meðal þeirra sem segjast hafa orðið fyrir áreitni af hálfu Weinstein.
Obama fordæmir hegðun Weinstein
Weinstein var á mánudag rekinn úr starfi sínu sem forstjóri fyrirtækisins The Weinstein Company, sem hann rak ásamt bróður sínum Robert Weinstein. Brottreksturinn var ákveðinn á stjórnarfundi, en brottreksturinn tók gildi þegar í stað. Þá hefur Weinstein verið ötull stuðningsmaður Obama hjónanna auk þess að hafa gefið rausnarleg framlög í kosningasjóði Hillary Clinton. Bæði Clinton og Obama hjónin hafa fordæmt athæfi Weinstein og lýst hryllingi yfir málinu. Eiginkona Weinstein, Georgina Chapman, sagði í samtali við tímaritið People að hún hafi ákveðið að skilja við hann.