Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hljóðritun á Brothers á dagskrá í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Jyske Opera

Hljóðritun á Brothers á dagskrá í kvöld

17.06.2018 - 12:39

Höfundar

Hljóðritun frá uppfærslu Íslensku óperunnar á Brothers, óperuverki Daníels Bjarnasonar, verður flutt á Rás 1 kl. 18.40 í kvöld.

Óperan Brothers var sýnd á Listahátíð í Reykjavík 9. júní. Brothers byggir á samnefndri kvikmynd eftir danska leikstjórann Susanne Bier. Verkið var frumflutt í Árósum í fyrra og er uppfærslan hér á landi samvinnuverkefni Íslensku óperunnar, Sinfoníuhljómsveitar Íslands og Den Jyske Opera. Brothers hlaut Reumert-verðlaunin, dönsku sviðslistarverðlaunin, sem ópera ársins. Hægt er að nálgast librettó verksins, eða óperutexta, á vef Jósku óperunnar.

Saga allra stríða

Verkið segir sögu bræðranna Jamies og Michaels og breytinguna sem verður á lífi þeirra þegar annar þeirra snýr aftur úr stríði. Daníel sagði í viðtali í Víðsjá á Rás 1 að söguþráðurinn henti vel sem efniviður í óperu. „Þetta er í raun og veru eldgömul saga, hálfgerð goðsaga. Sagan um hermanninn sem snýr aftur, það er í raun eins og í Ódysseifskviðu og það er enginn bók, handrit eða leikrit, þetta er í rauninni bíómynd og þá liggur kvikmyndahandritið til grundvallar. Við tökum þessa sögu og segjum hana upp á nýtt og nálgumst þannig að við erum ekki endilega að fylgja bíómyndinni og hennar frásagnarstíl heldur endursegjum við kjarnann í sögunni á nýjan hátt, á þann hátt sem virkar í óperu og á sviði,“ sagði Daníel.

Aðdáunarvert samspil myrkurs og birtu

María Kristjánsdóttir, gagnrýnandi Víðsjár, var hrifin og þakkaði aðstandendum óperunnar fyrir. „Ég ætla ekki að fullyrða að ég hafi skilið allt í hinum enska texta, þrátt fyrir að honum væri varpað upp á skjá eða uppá hvítt baktjaldið, enda nægði mér það sem ég heyrði, sá og skynjaði frá áhrifamikilli tónlistinni og leiknum: Enginn getur sent drengi í stríð nema skaða þá og skaðast af því sjálfur. Engin vestræn fjölskylda getur verið stikkfrí í þeim grimmilegu stríðum sem valdamennirnir senda syni okkar, bræður, systur til í Miðausturlöndum eða annars staðar. Hún er meðsek meðan hún gerir ekkert til að stöðva þau og ferst sennilega að lokum. Eða var það ekki gríski harmleikjahöfundurinn Æskilos sem setti í munn þræls eins eftir mikil dráp: „Dauðinn, segi ég, deyðir lifendur,“ Við höfum sem sagt vitað þetta lengi. Og ég þakka Daníel Bjarnasyni og öðrum aðstandendum fyrir að minna mig á það einu sinni enn á svo áhrifaríkan hátt.“

Tengdar fréttir

Leiklist

Aðdáunarvert samspil myrkurs og birtu

Leiklist

Daníel hlýtur dönsku sviðslistarverðlaunin

Klassísk tónlist

Saga allra stríða

Klassísk tónlist

Tónlistin fyllir rýmið milli línanna