Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hljóðmengun mest þar sem hraðinn er mestur

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Hljóðmengun í umhverfi helstu umferðaræða í þéttbýli á Íslandi er víða yfir viðmiðunarmörkum. Þar sem umferð er mest og umferðarhraðinn meiri fer hávaðamengun langt yfir viðmiðunarmörk. Gunnar Alexander Ólafsson, á sviði loftslagsmála og grænu samfélagi hjá Umhverfisstofnun, segir að mestu muni um umferðarhraða þegar kemur að hávaða frá bílaumferð.

Þetta má lesa úr hljóðmengunarkortum sem birt hafa verið á vef Umhverfisstofnunar. Kortlagningin fór fram árið 2017 og er það í annað sinn sem hávaðakortlagning hefur verið gerð, síðast var hún gerð árið 2012.

Það er sveitarfélaganna að bregðast við kortlagningu hljóðmengunar. Það geta þau til dæmis gert með því að reisa hljóðmúra, -veggi og hljóðmanir í jaðri hverfa við umferðargötur. Sé Reykjavík tekin sem dæmi þá má finna slík mannvirki víða í borginni. Um þessar mundir er unnið að slíkum veggjum við Kringlumýrarbraut í jaðri Hlíðahverfisins. Þá stóð styr um hljóðmön sem borgin reisti milli Miklubrautar og Rauðagerðis. Þessar tvær götur eru meðal umferðaþyngstu gatna á Höfuðborgarsvæðinu og hljóðmengun er hvergi jafn mikil.

„Þetta gefur ákveðna mynd en það þarf stundum að mæla betur,“ segir Gunnar Alexander um kortin í samtali við fréttastofu. Hann bendir á að hljóðmælingarnar sem búa að baki kortunum séu gerðar í fjögurra metra hæð. Hljóðmengun geti verið allt önnur í tveggja metra hæð. Ef íbúar telja of mikla hljóðmengun berast að húsum sínum þarf að gera nákvæmari mælingar við húsvegg. „Tilgangurinn með þessu er að sýna að hvar hávaði er við umferðargötur.“

Hávaðamengun getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu fólks. Hávaðamengun í þéttbýli er önnur helsta ógnin við heilsu íbúa á eftir lélegum loftgæðum. Aukin hávaðamengun getur haft áhrif á svefn fólks og svefnleysi getur haft áhrif á heilsu.

Mynd með færslu
 Mynd:
Samanburður á hljóðmengun í Reykjavík og á Selfossi. Umferðarhraði er mun meiri í Reykjavík en á Selfossi. Blár merkir mesta hljóðmengun, meira en 75 dB hávaða.

Spurður hvað það sé sem breyti mestu um hávaðamengun við umferðargötur segir Gunnar Alexander að umferðarhraði hafi mest áhrif. Það sést vel þegar rýnt er í kortin á vef Umhverfisstofnunar. Við helstu stofnæðar þar sem hámarkshraði er mestur má sjá að hávaðinn er mikill. Í íbúðahverfum er hávaðinn frá götum minni, enda er hámarkshraði þar lægri. Áberandi er að hávaðamengun við Þjóðveg 1 sem liggur í gegnum Selfoss er mun minni en til dæmis við Miklubraut í Reykjavík. Helgast það af lægri hámarkshraða, á Selfossi er hámarkshraðinn 50 kílómetrar á klukkustund, en á Miklubraut frá 50 upp í 80.

Gunnar Alexander segir jákvæð merki birtast sé kortlagningin 2017 borin saman við þá sem gerð var 2012. „Ég átti von á meiri hávaða en árið 2012 en aukningin varð ekki meira en raun ber vitni. Hávaðamengun hefur ekki aukist í takt við aukna bílaumferð, sem er mjög jákvætt,“ segir hann. Hávaðahamlandi mannvirki hafa haft nokkur áhrif þar, auk þess sem að tækniþróun og endurnýjun bílaflotans gæti hafa haft sitt að segja. „Það er búið að grípa til ótrúlega mikilla aðgerða.“

Hávaðakortin þarf að endurskoða á fimm ára fresti. Ef tilefni þykir til þá verður næsta kortlagning gerð árið 2022.