Hljóðbækur: Skortur þrátt fyrir kampavínstölur

22.08.2017 - 17:38
Mynd: unsplash / pexels
Viðskiptavinir nýs Rafbókasafns á netinu virðast sólgnir í rafbækur, sérstaklega hljóðbækur. Þeir verða þó að láta sér enskar bækur duga. Íslenskar rafbækur safnsins eru örfáar. Hljóðbókasafn Íslands gefur út yfir 200 hljóðbækur á ári hverju en þær eru ekki ætlaðar almenningi. Formaður stjórnar félags bókaútgefenda segir hljóðbókina ekki hafa náð sér á strik hér á landi og telur umsvif Hljóðbókasafns Íslands eiga á því einhverja sök. 

Við virðumst vera að breytast í snjalltækjaþjóð en þýðir það að við hættum að vera bókaþjóð? Bækur og snjalltæki eiga sér ákveðinn skurðpunkt, rafrænar bækur sem annað hvort má lesa eða hlusta á brúa bilið. 

Stöðug og massíf aukning

Frá því í vor hafa lánþegar bókasafna víða um land getað fengið raf- og hljóðbækur að láni og það án þess að fara út úr húsi, þær eru sóttar á netið með hjálp apps. 

„Það er bara stöðug og massíf aukning þannig að það er bara tilefni til þess að við getum, bókaverjur, baðað okkur í kampavíni.  Þetta eru bara gífurlega góðar tölur miðað við að þetta er alveg nýtt safn, nýtt fyrirbæri sem hefur lítið sem ekkert verið kynnt en hins vegar greinilegt að lesendur taka þessu fagnandi."

Segir Úlfhildur Dagsdóttir, verkefnastýra safnkosts Borgarbókasafnsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Úlfhildur Dagsdóttir.

Þróunin í bóksölu og útlánum á hefðbundnum bókum hefur verið á hinn veginn. Bóksala dróst saman um 43% á árunum 2010 til 2016 en gagnamagnsnotkun nær tuttugufaldaðist. Útlánum Borgarbókasafnanna fækkaði um 36% á sama tímabili. Þau jukust að vísu talsvert eftir hrun og því kannski villandi að miða við árið 2010 en frá árinu 2006 hafa útlán dregist saman um 23%.  

Rafræn eintök, ekki ótakmarkað streymi

Bækur Rafbókasafnsins eru leigðar út eins og hefðbundnar, efnislegar bókasafnsbækur. Það er eitt eintak af hverri bók og eintak sem er í útleigu hverfur úr rafrænu hillunni og inn í appið í snjalltækinu. Þegar lánstímabili er lokið hverfur bókin svo þaðan.

Þrír fjórðu hlutar rafbókanna eru á lesbókarformi og fjórðungur á hljóðbókarformi. Þrátt fyrir að hljóðbækurnar séu í minnihluta njóta þær hlutfallslega meiri vinsælda en rafrænar lesbækur, 44% þeirra bóka sem lánaðar eru út eru hljóðbækur. 

Yfir hundrað bækur slá Syrpunum við

Á Rafbókasafninu eru nær allar bækur á ensku. Á hefðbundnum bókasöfnum eru þær flestar á íslensku, á hefðbundnum söfunum eru líka gjarnan mörg eintök af hverri bók en á rafbókasafninu er aðeins eitt eintak af hverri. Það getur því verið erfitt að bera útlánstölurnar saman. Hefðbundið eintak af vinsælustu bókunum, nýjum bókum Arnalds og Yrsu, er kannski lánað yfir 20 sinnum á ári. Syrpurnar eru alltaf vinsælar líka. Eintök af Syrpum sem komu út í byrjun árs, á sama tíma og Rafbókasafnið opnaði, hafa mest verið lánuð út átta sinnum.  Á rafbókasafninu eru 73 titlar sem hafa lánast meira en tíu sinnum á hálfu ári og 137 eintök sem hafa lánast oftar en nýjustu Syrpueintökin. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Syrpur.

Nær allar bækurnar á ensku

En hvers vegna er aðeins um 1% Rafbókasafnsins á íslensku? Aðgengið hefur verið lítið. Úlfhildur vonar að útgefendur hér sjái sér hag í að semja við bandarísku bókasafnsveituna sem hýsir Rafbókasafnið. Margir Íslendingar séu orðnir áskrifendur af erlendum rafbókaveitum og hætt sé við því að íslenska bókin verði undir. Úlfhildur bendir á að það er tvöfaldur réttur á bak við hverja hljóðbók, annars vegar höfundaréttur, hins vegar réttur lesara. Þess vegna er dýrara að gefa út hljóðbók en rafbók.  

Mynd með færslu
 Mynd: Rafbókasafn/skjáskot
Sýnishorn af unglingabókum á Rafbókasafninu.

Hikandi útgefendur

Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins og formaður Félags bókaútgefenda, er hikandi. Hann á að vísu í samningaviðræðum við bókasafnsveituna og á von á að þeim ljúki í vikunni. Þá verði líklega hægt að setja íslenskar rafbækur inn á safnið. Það séu þó ýmsar prinsippspurningar sem leita þurfi svara við. Útgefendur hafi viljað ganga hægt um gleðinnar dyr og fylgjast með hvernig rafræn útlán ganga í öðrum löndum. Bókaútgáfan hér megi einfaldlega ekki við frekari samdrætti. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Egill Örn.

Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambandsins, er jákvæð gagnvart Rafbókasafninu og kerfinu á bak við það. „Eitt leyfi, eitt útlán. Þannig fá höfundar bæði sína höfundaprósentu frá útgefenda og greiðslu úr bókasafnssjóði."

Hljóðbækur í sókn í nágrannalöndum en ekki hér

Egill segir rafbókamarkaðinn í rénun erlendis, spádómar um að rafbækur taki við af prentuðum bókum virðist ekki ætla að rætast. Öðru máli gegni um hljóðbókamarkaðinn, hann hafi verið einn helsti vaxtarbroddur bókaútgáfu í löndunum í kringum okkur síðastliðin þrjú ár. Þar sé gefin út hljóðútgáfa af nánast hverri einustu bók sem kemur út á almennum markaði. Hvorugur markaðurinn hafi þó náð sér á strik hér.

Segir fyrirferð Hljóðbókasafns Íslands aftra markaðnum

Reynslan af því að gefa út hljóðbækur sé sérstaklega slæm.

„Ég veit ekki hvort það er einhver ein skýring á því en við útgefendur höfum bent á að fyrirferð Hljóðbókasafnsins, sem ætlað er prentleturshömluðum og öldruðum, er ansi mikil á Íslandi og reyndar margföld á við það sem við sjáum á Norðurlöndunum. Við höfum leitt að því líkum að sú fyrirferð valdi því að hinn íslenski örmarkaður, almenni markaður, nái sér alls ekki á strik."

Mynd með færslu
 Mynd: Hljóðbókasafn/skjáskot
Nýjustu bækurnar á Hljóðbókasafninu.

Hljóðbókasafnið gefur út 200 til 300 íslenskar hljóðbækur á ári. Safnið hefur undanþágu frá höfundalögum. Það hefur heimild til að hljóðrita ritverk á íslensku og lána þau út til blindra, sjónskertra og annarra sem ekki geta fært sér venjulegt prentletur í nyt. Lánþegar þurfa að framvísa læknisvottorði og þeir mega ekki dreifa efni til annarra. Safnkosturinn telur um 9000 titla, þar af 7000 íslenska. Safnið hagnast ekkert á útgáfunni og höfundar bókanna fá bætur vegna hennar. Getið er um bæturnar í samningi Rithöfundasambandsins og Hljóðbókasafnsins. 

Virkir lánþegar safnsins eru samtals 7808. Félag bókaútgefenda furðar sig á því að hér séu virkir notendur á hverja þúsund íbúa um fjórfalt fleiri en í Noregi og Svíþjóð. Útlán á hvern lánþega séu líka talsvert fleiri hér en þar. Í Danmörku er hlutfallið nær því sem gengur og gerist hér. 

Bókum deilt ólöglega

„Við sjáum svo þessar hljóðbækur trekk í trekk birtast á deilisíðum, á torrent-síðum svokölluðum," segir Egill. Oft sé auðvelt að rekja þær til Hljóðbókasafnsins, því enginn annar hafi hljóðritað þær. Nýjasta dæmið er að sögn Egils frá í síðustu viku. Egill sendi Speglinum skjáskot af færslu sem var sett inn í Facebook-hópinn Pabbatips. Maður nokkur deildi tugum hljóðbóka fyrir börn á Google drive, „ykkur er velkomið að hlaða þeim niður," skrifaði hann. Hátt í 200 pabbar létu sér líka við þetta. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot/Fíbút
Af Pabbatips.

Ósáttur við útlánafyrirkomulag

Egill Örn gerir athugasemdir við útlánafyrirkomulag Hljóðbókasafnsins, notendur geta hlaðið niður skrám eða fengið þær sendar á geisladiskum. Þeir þurfa ekki að skila þeim aftur en safnið gerir kröfu um að þeir fargi skránum sjálfir þegar útlánstíminn er liðinn. Egill segir að margir kæri sig ekki um að farga efninu, víða séu því myndarleg hljóðbókasöfn. 

Safnið merkir skrárnar með sérstökum kóða

Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, forstöðumaður hljóðbókasafnsins, segir að sumir höfundar hafi áhyggjur af því að hljóðritunin dragi úr sölu á bókum þeirra. Hljóðbókamarkaður á Íslandi hafi þó ekki heldur gengið þegar notendur safnsins voru færri. Notendur safnsins séu ánægðir með það. Það séu aðallega þeir sem eru í samkeppni á markaði sem gagnrýni. Nú eru allar skrár merktar lánþegum með sérstökum kóða og ef einhverjum dettur í hug að deila efni ólöglega og forsvarsmenn safnsins fá stolnu útgáfuna í hendurnar geta þeir rakið hana til notandans.

Einu sinni verið lokað á notanda

Einar Hrafnsson starfar hjá Tæknideild Hljóðbókasafnsins, hann segir að Hljóðbókasafnið sé ekki með skothelda tækni sem kemur í veg fyrir ólöglega dreifingu, ekki frekar en Sony eða Warner brothers. Lántakendur séu góðfúslega beðnir um að virða reglurnar. Hann segir að hljóðbækur safnsins rati stundum á deilisíður en þangað rati ekki síður bækur af almennum markaði. Safnið hefur einu sinni lokað á notanda sem dreifði efni ólöglega.

„Þetta er svolítið erfitt því segjum nú að þú sért skjólstæðingur og dóttir þín dreifir efni frá þér. Ef ég ætla að lögsækja þig fyrir þetta eða banna þér að fá lánað þá get ég ekki lokað alveg fyrirvaralaust. Við erum opinber stofnun. En ef þetta gerist þá eigum við samtal við hlutaðeigendur og reynum að finna út hvað hafi gerst."

Oft heyrir safnið einungis af dreifingunni, efnið er tekið út og starfsmenn safnsins ná ekki að rekja það til lánþega. Gjafmildi pabbinn var til dæmis búinn að taka bækurnar út af netinu áður en safnið gat kannað hvort þær væru frá þaðan. Hann var ekki lánþegi en gæti hafa fengið bækurnar frá einhverjum sem er það. 

Flutningabílstjórar vilja aðgang

Mynd með færslu
 Mynd: Hljóðbókasafn Íslands
Lesarar á Hljóðbókasafni.

Þóra segist fá fjölmargar fyrirspurnir frá fólki sem vilji aðgang að safnkostinum, flutningabílstjórar hafi til dæmis sýnt því áhuga. Slíkt bryti gegn höfundalögum. Umræðan um að opna safnið komi reglulega upp, hafi meira að segja ratað inn á Alþingi, en niðurstaðan sé alltaf sú sama, flækjustigið sé of hátt. Það þyrfti ný lög og það þyrfti að semja afturvirkt við Rithöfundasambandið um bækurnar sem hafa verið hljóðritaðar frá því safnið var stofnað árið 1981. Þá sé það svo að höfundar vilji yfirleitt fá einhverju ráðið þegar hljóðbækur þeirra eru gefnar út á almennum markaið. Egill segir þá ekkert koma að útgáfu Hljóðbókasafnsins og að sumir telji gæðum efnisins ábótavant. Einar bendir á að lagalegt hlutverk safnsins sé að tryggja mannréttindi ákveðins hóps, ekki að þjónusta almenning. Hjálpartækjabanki lánar þér ekki göngustaf í fjallgöngu, útskýrir hann. 

Vill hugsa safnið upp á nýtt

Kristín Helga telur að hugsa þurfi safnið upp á nýtt í samræmi við nýja tækni og í samvinnu við útgefendur og höfunda.  „Þannig gæti safnið séð um útgáfu titla sem væru sértækir en nauðsynlegir og útgefendur sinna ekki en á móti gætu þau látið í friði útgáfu sem útgefendur sinna sjálfir. Útgefendur gætu þá skuldbundið sig til þess að fara í öflugri hljóðbókaútgáfu samhliða prentuðum bókum, þetta gæti verið einfaldur fundur að hausti, samvinna og samstarf þar sem menn skipta bara á milli sín verkum." 

Þóra segir safnið reyna að nýta framlögin frá ríkinu eins vel og hægt er, yfirbyggingin sé lítil. Markaðurinn virki allt öðruvísi og hann megi ekki stjórna aðgengi prentleturshamlaðra að hljóðbókum því yfirleitt séu bara vinsælustu titlarnir gefnir út. 

Óviss um áhrif streymisveita

Bókasöfn víða um heim hafa stigið það skref að opna Rafbókasafn. Úlfhildur segir að það hafi reynst flókið að finna upp kerfi sem er aðgengilegt en verndar líka rétt höfunda og útgefenda. Íslensku söfnin hafi því beðið eftir að haldbær lausn fannst í útlöndum. Úlfhildur sem er rithöfundur sjálf segir rithöfunda og útgefendur hafa áhyggjur af veitum þar sem er ótakmarkaður aðgangur að lesefni. Veitum sambærilegum Spotify og Netflix.  Áhyggjurnar lúti að þjófnaði en líka því að stór hluti lesendahópsins lesi kannski bókina á fyrstu vikunni eftir að hún kemur út og þá selst hún ekki eftir það. Þess vegna hafi þessi leið verið farin, að lána út rafræn eintök og hafa fjölda þeirra takmarkaðan.

Efnisveitur góðar fyrir notendur

Kristín segir að það sé að verða bylting í útgáfu hljóðbóka fyrir hljóðbókaveitur og hugsanlega sé tækifæri núna til að gefa út fleiri íslenskar hljóðbækur. Hún vill læra af reynslu annarra þjóða og stíga varlega til jarðar. Það verði að gera greinarmun á því að framleiða eintök til að selja úti í bókabúð og því að selja afnot af framleiddri bók í efnisveitu.  „Efnisveitur geti verið góðar fyrir notendur, þeir fá mikið fyrir lítinn pening, en höfundar og bókaútgefendur geta borið skarðan hlut frá borði. Það er alltaf slæmt því um leið og fækkar í þeirra röðum verður úrvalið fátæklegra og það getur gerst mjög hratt. Menn verða að átta sig á því hvernig best er að gera hlutina svo allir lifi af. Um leið viljum við að bókin komi til sinna á því formi sem hentar hverjum og einum best."

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi