Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Hleypur maraþon á degi hverjum

Mynd með færslu
 Mynd:

Hleypur maraþon á degi hverjum

12.10.2012 - 20:10
Tékkneskur hlaupari heldur nú upp á það að hann er fullfrískur eftir bílslys með því að hlaupa hringinn í kringum Ísland. Hann hleypur rúmlega eitt maraþon á dag og áætlar að vera 30 daga á leiðinni.

René Kujan, er ríflega hálfnaður með hlaupið en hann er fyrstur til að fara hringveginn með þessum hætti. Hann hleypur rúmlega 42 kílómetra á dag og áætlar að vera í Reykjavík þann 22. október. Fyrir fimm árum lenti hann í alvarlegu bílslysi og leit út fyrir að hann yrði bundinn hjólastól það sem eftir væri. „Ég var mjög lánsamur að geta staðið í fæturna og hlaupið á ný,“ segir René. „Ég ákvað því að gera það sem ég gæti til að hjálpa þeim sem eru ekki jafn heppnir og ég.“

René hefur safnað fé í Tékklandi til stuðnings íþróttamönnum sem eru í hjólastól og segist vonast til að geta safnað fé á Íslandi fyrir fatlaða Íslendinga. René segir að hlaupið hafi gengið vel og er íslenskum hlaupagörpum velkomið að hlaupa með honum. Hann hefur fimm sinnum áður komið hingað til lands og segist elska landið. Með í för er unnusta hans sem keyrir á eftir honum í húsbíl, ásamt þriggja mánaða syni þeirra. „Þau veita mér mikinn stuðning. Ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta væri án þeirra.“