Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hleypur klyfjaður af vegarusli

25.04.2017 - 21:16
Hlaupara á Egilsstöðum ofbauð allt ruslið sem hent er út um bílglugga og liggur með fram vegum. Hann hefur í þrjú ár hirt upp allt rusl sem hann sér á hlaupum og fékk í dag viðurkenningu Náttúruverndarsamtaka Austurlands, á degi umhverfisins.

Eyþór Hannesson býr á Egilsstöðum og sést oft á ferðinni að loknum vinnudegi í gulum hlaupagalla. „Nú stendur til að taka smá rúnt hérna yfir í Fellabæ skokkandi og tína eitthvað af rusli í leiðinni. Snúa þar við. Það er ágætt verkefni dagsins.“ Og einhverra hluta vegna liggur ruslaslóðin út úr bænum. Við finnum dósir, sælgætisbréf, sígarettupakka. „Sumu henda menn út úr bílunum því miður. Annað fýkur náttúrulega eins og plast. Það fýkur langar vegalengdir. Og ég er búinn að finna í gegnum tíðina svolítið af allskyns ljósabúnaði af bílum. Ég held að þetta detti nú bara af einhverra hluta vegna,“ segir Eyþór. Í einum leiðangrinum fann hann svo mikið rusl að það fyllti marga svarta ruslapoka og bílstjórar sem sáu hann burðast með þetta allt aumkuðu sig yfir hann og buðust til að aka ruslinu heim til hans. Þar sturtar hann út pokunum og sorterar.

„Plastdruslurnar blakta“

Náttúruverndarsamtök Austurlands veittu honum viðurkenningu fyrir störf í þágu umhverfisverndar. Þau telja hann sýni gott fordæmi og veki athygli á mikilvægi þess að ganga vel um. Framvegis munu samtökin árlega veita viðurkenningu til einhvers sem hefur tekið til hendinni í þágu umhverfisins. Eyþór segir að hann sé farin að taka meira eftir ruslinu en áður. „Mér finnst þetta alltaf blasa við. Sömu plastdruslurnar blakta á girðingum eða runnum í fleiri vikur og mánuði og það dettur engum til hugar að taka þetta.“

Neftóbaksdósin hans Ísleifs fundin

Eyþór hefur verið duglegur að minna á málstaðinn og birtir reglulega myndir af ruslafeng sínum á Facebook. „Það eina sem ég hef fundið merkt var neftóbaksdós hér einhver staðar inni á völlum og hún var merkt Ísleifi. Ég prófaði nú að auglýsa eftir Ísleifi en hann gaf sig ekkert fram. Menn geta verið með ruslapoka í bílnum hjá sér og safnað í hann og hent þessu svo á næstu bensínstöð. Alls ekki að láta þetta út um gluggana.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV