Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hlaut verðlaunin í annað sinn

Mynd með færslu
 Mynd:

Hlaut verðlaunin í annað sinn

01.09.2014 - 17:50
Andri Snær Magnason hlaut Vestnorrænu barnabókaverðlaunin fyrr í dag fyrir bók sína Tímakistuna. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í efri-deildarsal Alþingishússins.

Prófessor Dagný Kristjánsdóttir, formaður dómnefndar, tilkynnti hver hlyti verðlaunin að þessu sinni og ræddi bókina í stuttu máli.  „Tímakistan er ævintýri sem gerist á tveimur tímasviðum“ segir Dagný. „Á fortíðarsviðinu er sagt frá konungi sem elskar dóttur sína svo heitt að hann vill gefa henni eilífa æsku og sigra heiminn fyrir hana. Hann stendur við orð sín en um leið hefur hann engan tíma til að ala dóttur sína upp heldur geymir hana í töfratímakistu sem stöðvar tímann, meðal annars vegna þess að kónginum finnst hann ekki nógu góður handa prinsessunni. Á nútímasviðinu er búið að fjöldaframleiða tímakistuna sem allir geta keypt sér til að flýja í þegar tímarnir verða viðsjárverðir og það er svo að segja alltaf.“

Verðlaunin hafa nú verið veitt annað hvert ár frá árinu 2002. Færeyjar, Grænland og Ísland eru aðilar að Vestnorræna ráðinu og markmið verðlaunanna að styðja við bókmenntir þessara þjóða og hvetja rithöfunda þeirra til þess að skrifa barna- og unglingabækur. Að þessu sinni var ein bók tilnefnd frá hverju landi.  Dómnefnd verðlaunanna í ár var skipuð prófessor Dagný Kristjánsdóttur, formanni dómnefndar, Oddfríði Marni Rasmussen rithöfundi og Veru Lise Rosing Olsen. Þær þurftu að velja milli þriggja bóka. Frá Grænlandi var það bókin Nasaq teqqialik (eða Töfraskeytið) eftir Kathrine Rosing. Frá Færeyjum, bókin Flata kaninin (eða Flata kanínan) eftir Bárð Oskarsson og frá Íslandi, Tímakistan, eftir Andra Snæ Magnason sem eins og áður sagði hlaut verðlaunin.

Andri Snær er þar með fyrsti rithöfundurinn til þess að hljóta verðlaunin tvisvar en hann hlaut þau ásamt Áslaugu Jónsdóttur, fyrir bókina Sagan af bláa hnettinum. Það var árið 2002 og var það í fyrsta skipti sem verðlaunin voru afhent. Í dag voru þau hins vegar veitt í sjöunda sinn og nú hafa íslenskir höfundar fimm sinnum hlotið verðlaunin. Andri Snær og Áslaug árið 2002Árið 2004 Kristín Steinsdóttir og Halla Sólveig Þorgeirsdóttir fyrir Engil í Vesturbænum. Kristín Helga Gunnarsdóttir árið 2008 fyrir bókina Draugaslóð og árið 2010 Gerður Kristný fyrir söguna Garðurinn. Grænland og Færeyjar hafa bæði hlotið verðlaunin einu sinni. Grænlenski höfundurinn Lars Pele Berthelsen fyrir bókina Kassalimik Oqaluttua (eða Sagan af Kassali) árið 2012. Og færeyski höfundurinn Bárður Óskarsson hlaut verðlaunin árið 2006 fyrir bókina Ein hundur, ein ketta og ein mus

Andri Snær Magnason, handhafi vestnorrænu barnabókaverðlaunanna árið 2014, hélt stutta tölu þegar hann veitti verðlaununum viðtöku fyrr í dag. „Af hverju ætti eitthvað áhugavert að koma frá vestnorræna svæðinu“ spurði Andri Snær. „Er ekki nóg að þýða metsölubækur frá öðrum löndum.“ Hann svaraði spurningunni sjálfur og sagði að við sem búum á þessu svæði, í Færeyjum, á Grænlandi og á Íslandi, höfum aðgang að sérstæðum og fágætum sögum. Auk þess sagðist hann hafa verið sérstaklega ánægður þegar hann fékk verðlaunin í fyrsta sinn og Sagan af bláa hnettinum var þýdd á grænlensku. Andri Snær fór þá með titil bókarinnar á grænlensku og uppskar lófaklapp og hlátur frá salnum, og þá sérstaklega frá fjölmennri sendinefnd frá Grænlandi.  Víðsjá fékk Andra Snæ með sér inn í hliðarherbergi í Alþingishúsinu og heyrði í honum hljóðið. Og fyrst var spurt hvaða þýðingu þessi verðlaun hefðu fyrir hann? Viðtalið má heyra í lok innslagsins hér að ofan.