Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Hlaupið að líkindum yfirstaðið

13.07.2011 - 16:19
Jökulhlaupið undan Köldukvíslarjökli í nótt kom að öllum líkindum niður farveg Sveðju. Hlaupið náði hámarki klukkan þrjú í nótt, en virðist nú vera yfirstaðið.

Gunnar Njálsson, landvörður í Nýjadal var staddur við vaðið á Köldukvísl, undir Svarthöfða, um þrjúleytið í dag. Hann kvaðst í viðtali við fréttastofu RÚV ekki sjá nein ummerki á Köldukvíslarjökli sjálfum. Aurarnir niðurundan væru þó allir hvítir af vatnagangi. Hann bætti við að sér virtist hafa farið mikið flóð niður Sveðju í nótt.

Hlaupið streymdi í Hágöngulón og vatn þaðan hefur í dag streymt í Þórisvatn. Engin hætta er talin stafa af þessu hlaupi.

Jarðvísindamenn og fulltrúar Almannavarna komu til fundar síðdegis til að ræða stöðuna. Ráðgert er að fljúga yfir Köldukvíslarjökul klukkan sex í dag.