Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Hlaup hafið í Skaftá

25.08.2012 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Hlaup í Skaftá er hafið. Ísskjálftavirkni hefur sést á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar á Grímsfjalli og Skrokköldu og Jökulheimum.Erfitt er að staðsetja þessa skjálfta nákvæmlega en allt bendir til þess að vatn úr vestri Skaftárkatli sé að brjóta sér leið undir jöklinum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Þar kemur jafnframt fram að Jón Grétar Sigurðsson, flugmaður Atlantsflugs í Skaftafelli, hafi flogið yfir svæðið í hádeginu í dag og fengið það staðfest að hlaupið komi úr vestri katlinum.

Staðsetning ísskjálfta í katlinum benda til þess að hlaupvatnið sé nú í um 20 km fjarlægð frá jökulsporðinum. Það þýðir að hlaupið mun ekki ná í Skaftá fyrr en seint í kvöld eða snemma á morgun, segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Hlaup úr vestri katlinum eru minni en hlaup úr eystri katlinum og því einnig hættuminni. Það er þó mælt með því að fólk fari ekki að útfalli hlaupsins þar sem hætta er á brennisteinsgasi á því svæði. Einnig má vænta að það hlaupi úr eystri katlinum á næstu dögum eða vikum. Síðast hljóp úr vestri katlinum í júlí 2011.

Starfsmenn Veðurstofunnar fylgjast grannt með gangi mála.