Hlandsjampó með rósailm á leið á markað

Mynd: RÚV / RÚV

Hlandsjampó með rósailm á leið á markað

07.05.2015 - 13:10

Höfundar

„Það hefur verið þvílíkur áhugi á þessu, fólk hefur sett sig í samband við okkur og sagt: „Ég verð að fá að prófa þetta,““ segir Anton Reynir Hafdísarson, sem hefur ásamt félögum sínum í nýsköpunarnámskeiði í Háskólanum í Reykjavík hafið framleiðslu á sjampó blandað með kúakeytu.

Það er ekki langt síðan fólk bleytti hár sitt upp úr keytu, eða kúahlandi, til að gefa hárinu fallegan gljáa. Nú hefur hópur nemenda við Háskólann í Reykjavík tekið hugmyndina upp á sína arma og hafið framleiðslu á sjampói sem er blandað með kúakeytu undir nafninu Q Shampoo

Bryn­hild­ur María Gests­dótt­ir og Anton Reynir sögðu frá sjampóinu í Síðdegisútvarpinu. Brynhildur segir að það sé engin bábilja að keyta sé góð fyrir hárið.  „Það er rosalega vítamínríkt, það er mikið af góðum steinefnum í því, það er bakteríudrepandi og hreinsandi og hefur sannað sig í gegnum tíðina að það hefur veitt góða raun," segir hún og tekur fram að það finnst engin keytulykt af sápunni, aðeins rósaangan. 

Anton Reynir óttast ekki að það verði erfitt að koma sjampóinu á markað, margir séu áhugasamir um að prófa, sérstaklega eldra fólk sem man eftir því þegar keyta var notuð í hárið.