Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hjúkrunarrýmin skipta sköpum fyrir Landspítala

10.01.2019 - 19:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Rekstur hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi er tryggður og fjörutíu hjúkrunarrými verða tekin til notkunar þar á næstu mánuðum. Framkvæmdastjóri á Landspítala segir þetta skipta sköpum fyrir rekstur spítalans. Hjúkrunarheimilið hefur staðið autt frá áramótum. Opnun þess hefur dregist vegna deilna milli ríkis og sveitarfélagsins um hvort þeirra sæi um reksturinn.

Vigdísarholt, sem er einkahlutafélag í eigu ríkisins, annast rekstur nýja hjúkrunarheimilisins á Seltjarnarnesi, samkvæmt viljayfirlýsingu sem undirrituð var í dag. Þar verður pláss fyrir 40 manns.

Deildu um hver ætti að sjá um reksturinn

Greint var frá því í fréttum RÚV í desember að þrátt fyrir að heimilið væri fullklárað um áramótin, yrði það ekki tekið í notkun strax þar sem Seltjarnarnesbær og ríkið deildu um hvort þeirra skyldi sjá um reksturinn. Á sama tíma biðu á annað hundrað manns á Landspítalanum og nálægum sjúkrahúsum eftir því að komast á hjúkrunarheimili.  „Við erum mjög ánægð með það að það var hoggið á þennan hnút og þetta mun hafa veruleg áhrif á flæði á Landspítala“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítala. „Það eru yfir hundrað manns á Landspítala sem að bíða eftir að komast á hjúkrunarheimili, þetta mun sannarlega hafa áhrif.“

Gert er ráð fyrir að það geti tekið allt að þrjá mánuði að koma heimilinu í fullan rekstur. Vandi Landspítalans er þó langt frá því að vera leystur. Þörf er á enn fleiri hjúkrunarrýmum. „Þetta tekur allt sinn tíma, það þarf að byggja og reisa og manna og koma hjúkrunarheimilunum í rekstur.“ 

Hún segir fráflæðisvanda spítalans hafa lengi blasað við. „Við erum að hreyfa okkur stundum of hægt og höfum gert það í gegnum tíðina. Það er ekki eins og vandamálið sé að birtast okkur núna, þetta var vitað fyrir mörgum árum síðan.“