Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hjúkrunarheimili: Stór munur á mönnun og gæðum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á hjúkrunarheimili á Dalvík er hverjum íbúa sinnt í rúmar þrjár klukkustundir á dag að meðaltali. Í Grindavík eru þær tæplega sex. Sums staðar úir og grúir af fagmenntuðu fólki. Annars staðar er skortur. Aðbúnaður íbúa er líka misjafn. Ríkið gerir ekki skýrar kröfur um lágmarksmönnun á hjúkrunarheimilum. 

Það eru til fagleg viðmið um lágmarksmönnun á hjúkrunarheimilum. Landlæknisembættið skilgreindi þau árið 2015. Embættið mat það svo að til að tryggja öryggi þyrfti að uppfylla þessi viðmið. Þetta eru fagleg viðmið og hafa ekkert lagalegt gildi. 
 
Þegar ríkið gerði í fyrsta sinn rammasamning við hjúkrunarheimili haustið 2016 var ákveðið að styðjast ekki við viðmið Landlæknis. Þess í stað var einfaldlega kveðið á um að mönnun þyrfti að vera nægilega mikil til þess að heimilin gætu uppfyllt kröfur velferðarráðuneytisins til þjónustunnar. Greining, sem forsvarsmenn tveggja hjúkrunarheimila fengu ráðgjafarfyrirtæki til að gera, leiddi í ljós að það vantaði tugi prósenta upp á að daggjöldin frá ríkinu dygðu til að uppfylla lágmarksviðmið landlæknis. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hörmuðu að daggjöldin nægðu ekki til að uppfylla lágmarksviðmið landlæknis en lögðu líka áherslu á að fá staðfestingu á því að fyrst að fjármagnið fylgdi ekki, yrði ekki ætlast til þess að hjúkrunarheimili fylgdu viðmiðunum. Sú staðfesting fékkst. 
 
Heimilin eiga samkvæmt kröfulýsingu velferðarráðuneytisins að vera góður staður til að búa á, íbúar eiga að vera öruggir, þörfum þeirra á að mæta, starfsfólkið sem sinnir þeim á að tala íslensku og þeir eiga að geta farið í fótsnyrtingu, tekið þátt í félagsstarfi og fengið þjálfun, svo dæmi séu nefnd.

Þjónustustig ráðist af fjármagni frekar en kröfum stjórnvalda 

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu kvörtuðu í aðdraganda samningsgerðar yfir því að kröfulýsing velferðarráðuneytisins hefði ekki verið kostnaðargreind. Í samningnum voru ákvæði um að starfshópi yrði falið að gera það, sá skilaði áfangaskýrslu í vor og þar segir að kröfurnar séu mjög óljósar og því geti reynst erfitt að meta kostnaðinn. Líklega eigi hjúkrunarheimliin erfitt með að taka ákvarðanir á grundvelli hennar um það hvaða þjónustu þau eigi að veita. Þá sé þjónustustig afar misjafnt milli heimila og virðist ákvarðast af fjármagni og aðstæðum á hverjum stað frekar en af kröfum þess opinbera. 

Ein skilaboð með vinstri og önnur með hægri

Halldór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, telur að það ættu að vera skýr viðmið. „Það á ekki að vera geðþóttaákvörðun hjá hverjum rekstraraðila að keyra þetta upp eða niður eftir því hvernig fjárhagurinn lítur út, það finnst mér ekki. Það eiga að vera viðmið um faglegheit.“ 

Honum svíður það að ekki hafi verið stuðst við viðmið landlæknis. „Það er bara alveg ótrúlegt að við skulum vera með viðmið, kröfulýsingu og áform um það hvernig eigi að halda uppi gæðum í starfi í öldrunarþjónustu og það eru með vinstri hendinni send skilaboð um að það eigi bara ekkert að taka mark á því. Það er náttúrulega bara algjörlega grábölvað og út úr kú.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þjónustuskerðing þrátt fyrir hærri framlög

Kjartan Kjartansson, framkvæmdastjóri Höfða á Akranesi talar á svipuðum nótum. „Það er þyngra en tárum taki að ríkisvaldið er ekki tilbúið að fjármagna lágmarks mönnun miða við viðmið Embættis landlæknis. Í mínum huga er það alveg lágmark að mönnun á hjúkrunarheimilum nái þessu lágmarksviðmiði en meðan verkkaupi er ekki tilbúin til þess er það ekki möguleiki og ef vel ætti að vera ætti mönnun að vera nálægt æskilegu viðmiði en ekki lágmarksviðmiði, en fyrsta skrefið væri að ná lágmarksviðmiðinu.“

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistuheimilanna, segir að framlög hafi hækkað með rammasamningnum en á sama tíma hafi verið tekin ákvörðun um að skerða þjónustuna, áður hafi heimilin reynt að mæta viðmiðum landlæknis og flest verið rekin með tapi. 

Tvöföld viðmið

En hvernig er mönnunin svona í ljósi þess að skýrum viðmiðum er ekki fyrir að fara? 

Viðmið landlæknisembættisins eru tvöföld. Fyrst má nefna umönnunarklukkustundir á sólarhring. Vinnustundir starfsfólks í umönnun eru lagðar saman og deilt með íbúafjölda. Lágmarksviðmið er 4,65 en æskilegt viðmið 5,3. Svo eru viðmið um hversu stór hluti þeirra sem sinnir umönnun ætti að vera fagmenntaður. Miðað er við að hlutfall hjúkrunarfræðinga fari ekki undir 20% og helst í 28% og hlutfall fagmenntaðra í heild, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og félagsliða, fari ekki undir 57%.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Frá opnun Eyrar á Ísafirði.

Munar tugum prósenta á hlutfalli fagmenntaðra

Spegillinn sendi hjúkrunarheimilum landsins fyrirspurn, svör bárust frá á þriðja tug heimila. Í ljós kom mikill munur. Fæst hjúkrunarheimili ná viðmiðum landlæknis en þau eru mislangt undir þeim. Það munar allt að þremur umönnunarklukkustundum á íbúa milli heimila og tugum prósenta á hlutfalli fagfólks í umönnun. Á Dalvík eru umönnunarklukkustundirnar 3,3 en á Víðihlíð í Grindavík eru þær 5,6. Sums staðar er hlutfall hjúkrunarfræðinga 9%, annars staðar 25%. Hulduhlíð á Eskifirði státar af háu hlutfall fagmenntaðra, 78%, en þar eru umönnunarklukkustundir of fáar miðað við viðmið landlæknis. Fjárskortur veldur því að mönnunarviðmið nást ekki og þar sem ekki er svigrúm til að fjölga starfsmönnum hefur þurft að vísa einstaklingum sem þurfa mikla umönnun frá. Á Uppsölum í Fáskrúðsfirði er þessu öfugt farið. Hlutfall faglærðra er einungis 38% en umönnunarklukkustundirnar eru 5,3, jafnmargar og landlæknir telur æskilegt að þær séu. 

 

Sums staðar tekst næstum því að ná bæði viðmiðum um umönnunarklukkustundir og hlutfall fagmenntaðra. Það á til dæmis við á Öldrunarheimilum Akureyrar þar sem vantar herslumuninn upp á að viðmið um fagmenntun náist og á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum, sem HSA rekur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Halldór Guðmundsson
Frá Akureyri.

Aðkoma sveitarfélaga misjöfn

Fjármagn hlýtur að hafa mikið að segja. Svo virðist sem þau heimili sem heyra undir heilbrigðisstofnanir landshluta og eru ekki aðilar að samningnum við ríkið komi oft betur út en önnur þegar horft er til mönnunar.
 
Þá má ætla að misjöfn aðkoma sveitarfélaga ýti undir mun á milli heimila. Sum heimili njóta niðurgreiðslna frá þeim, önnur ekki og þær vega misþungt í bókhaldinu. Samkvæmt athugun sem Samband íslenskra sveitarfélaga gerði árið 2017 studdu 24 sveitarfélög við hjúkrunarheimili. Lægsta niðurgreiðslan namtveimur milljónum og sú hæsta 460 milljónum. Hjúkrunarheimili heyra undir ríkið, sveitarfélögunum ber því ekki skylda til að styðja við þau. 

Vegirnir, veturnir og samkeppnin um fólkið 

Annað, sem gæti haft áhrif, tengist ekki fjárhagsstöðu heimilanna heldur frekar staðsetningu þeirra eða harðari samkeppni um starfsfólk á uppgangstímum. Forsvarsmenn sumra heimila segja starfsmannaveltu litla og auðvelt að ráða hæft fólk. Forsvarsmaður Lundar á Hellu segir þetta eiga við þar og á Jaðri í Ólafsvík er staðan sögð mjög góð. Aðrir kvarta yfir skorti, einkum á fagfólki. Það er kannski til fjármagn til þess að ráða hjúkrunarfræðing, iðjuþjálfa eða sjúkraþjálfa en það sækir enginn um. Stöðugildi standa ómönnuð, mánuðum, jafnvel árum saman.
 
Á Ólafsfirði og Þingeyri kemur vandinn til af því að það er ekki fagmenntað fólk á staðnum og vegir og veðurfar þannig að fólk úr nærliggjandi byggðarlögum treystir sér ekki til að sækja þangað vinnu. 

Erfitt að fá fólk alls staðar í bænum

Í Grenilundi á Grenivík hefur mönnun batnað jafnt og þétt, umönnunarklukkustundir eru 4,3. Forstöðumaðurinn segir að það hafi gengið ágætlega að ráða hjúkrunarfræðinga en skortur sé á sjúkraliðum.„Það sem stendur okkur mest fyrir þrifum er að það vantar almennt fólk til starfa á flesta vinnustaði hér.“ Hún segir framlög frá ríkinu engan veginn ná utan um þá þjónustu sem lagt sé upp með að heimilin veiti. Ríkið geti bætt í kröfulýsingar án þess að peningar fylgi. „Við sem vinnum í öldrunargeiranum finnum alveg fyrir auknum kröfum sem er gott en einhvern veginn verður að vera hægt að framfylgja þeim.“  

Hjúkrunarfræðingar frá Filippseyjum bjarga málunum

Ingibjörg Ólafsdóttir, forstöðumaður Droplaugarstaða í Reykjavík, segir orðið erfiðara að fá íslenskumælandi fólk til starfa. Brugðist hafi verið við skorti á sjúkraliðum með því að ráða inn fleiri félagsliða. Þá hafi síðastliðin tvö ár verið ráðinn til starfa nokkuð stór hópur hjúkrunarfræðinga frá Filippseyjum. Þeir byrja í 40% starfi við umönnun og eru samhliða í íslenskunámi við Háskóla Íslands. Að sjö mánuðum liðnum sækja þeir svo um íslenskt hjúkrunarleyfi. 

Mynd með færslu
Hrafnista. Mynd úr safni. Mynd: Rúv

Nálægt viðmiðum en finnst það ekki nóg

Á Hvammstanga og Hólmavík rekur HVE hjúkrunardeildir. Rósa Marínósdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar segir að stuðst sé við viðmið landlæknis um mönnun, hlutfall hjúkrunarfræðinga á Hvammstanga er þannig tæplega 20% og hlutfall fagmenntaðra 50% en stefnt er að því að það verði 56% í lok árs. Umönnunarklukkustundir eru fimm. Á Hólmavík er staðan svipuð. Rósa segir, að best væri að hærra hlutfall þeirra sem koma að umönnun væri með fagmenntun og æskilegt að umönnunarklukkustundir væru fleiri, en fjárframlag til stofnunarinnar leyfi ekki aukna mönnun.

Fjarnámið breytti miklu

Hvað varðar fagmönnun hafi margt breyst á svæðinu með tilkomu fjarnáms í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Þá hafi Fjölbrautarskólinn á Akranesi menntað marga sjúkraliða undanfarin ár. Margir sem unnu við umönnun aldraðra hafi fengið tækifæri til að mennta sig og koma heim aftur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Frá Hvammstanga.

Á Víðihlíð, sem heyrir undir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja  er staðan önnur. Starfsmannavelta hefur aukist og fagfólki fækkað. Ekki hefur gengið að fá faglært afleysingafólk þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar. Draga þurfti saman í rekstri á árunum eftir hrun og árið 2014 var staða yfirhjúkrunarfræðings lögð niður. Þá hefur almennt gengið illa að fá hjúkrunarfræðinga til starfa þar sem stofnunin hefur ekki getað boðið samkeppnishæf laun. Forsvarsmenn heimilisins segja margt ófaglært starsfólk hafa farið og menntað sig, sumt á heilbrigðissviði. Það hafi þó ekki skilað sér aftur í Víðihlíð, svo virðist sem öldrunarhjúkrun sé ekki spennandi kostur í þeirra augum. Þá sé Grindavík ekki stórt samfélag og nánast hægt að fullyrða að meirihluta menntaðra sjúkraliða sé í vinnu hjá HSS. 

Landlæknir: Margt hefur áhrif

En er þessi munur milli mönnunar heimila eðlilegur? Í svari Landlæknisembættisins segir að margir þættir komi til álita þegar kemur að því að leggja dóm á hvort munur á umönnunarklukkustundum og hlutfalli fagmenntaðra starfsmanna milli hjúkrunarheimila sé eðlilegur. Íbúasamsetning, þyngdarstuðull, menntun og færni starfsfólks, stjórnunarhættir, skipulag og fleira geti útskýrt muninn. Nokkrir forsvarsmenn hjúkrunarheimila minntust á að heimilin væru fjölbreytt og ekki hægt að dæma rekstur eins út frá forsendum annars. Forsvarsmaður Brákarhlíðar í Borgarnesi segir aðstæður, aðbúnað og umfang hjúkrunarheimila á Íslandi gríðarlega ólíkt. Það hafi töluverð áhrif á rekstrarlegar forsendur hvers og eins. Samsetning mönnunar skipti máli. Það sem gangi vel á einum stað þurfi ekki að ganga vel á þeim næsta. Stundum setji húsnæðið skorður, stundum hefðir og venjur, stundum hæfni stjórnenda en á flestum stöðum sé það þó takmarkað fjármagn. Sjúkratryggingar benda á að verklag og tækni geti haft áhrif á mönnunarþörf og Halldór Guðmundsson, hjá Öldrunarheimilum Akureyrar, nefnir hugmyndafræði. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Orkan fer í að ganga gangana

Hildur Elísabet Pétursdóttir, deildarstjóri Bergs í Bolungarvík, þekkir neikvæð áhrif húsnæðis af eigin raun. Húsnæðið sem Berg er í var ekki byggt sem hjúkrunarheimili, hún segir að vöktun sé erfið og fjarlægðir milli herbergja miklar, hjá starfsmönnum fari mikill tími og orka í að ganga á milli þeirra.

Umönnunarklukkustund hvað?

Ætli íbúar hjúkrunarheimilis þar sem umönnunarklukkustundirnar eru rétt rúmlega þrjár fái verri þjónustu en íbúar á heimili þar sem umönnunarklukkustundirnar eru fimm? Er kannski í lagi að umönnunarklukkustundir á ákveðnu heimili séu bara þrjár, ef tækjabúnaður og húsakostur er til fyrirmyndar? Landlæknisembættið ákvað þegar viðmiðin voru skilgreind að horfa ekki til slíkra þátta. Í skýrslu um viðmiðin er þó viðurkennt að aðstæður á hjúkrunarheimilum séu misjafnar, það megi aðlaga viðmiðin að hverju heimili fyrir sig. Þá segir að það þurfi að horfa til þátta á borð við umönnunarþörf íbúa. Ef hún eykst, þarf að auka mönnun. Viðmiðin byggðust á mati 15 sérfræðinga, hjúkrunarfræðinga og mannauðsstjóra sem störfuðu á hjúkrunarheimilum. Þetta var fólk frá misstórum og ólíkum heimilum og enginn í hópnum taldi að umönnunarklukkustundir mættu vera færri en fjórar, flestir vildu hafa þær í kringum fimm. Ef eitthvað er ætti mönnunarþörf að hafa aukist frá því viðmiðin voru gefin út þar sem meðalumönnunarþörf heimila hefur farið vaxandi á landsvísu. 

Tengsl milli ónógrar mönnunar og lélegra gæða

Rannsókn Landlæknisembættisins á tengslum mönnunar og gæða þjónustu á hjúkrunarheimilum leiddi í ljós að þegar mönnun var ónóg var líklegra að aðbúnaður íbúa væri verri. Að þeir væru með þrýstisár, hægðaleka sem ekki var meðhöndlaður með reglubundnum salernisferðum, liðu vökvaskort, væru rúmfastir eða þunglyndir. Þeir duttu líka frekar og glímdu frekar við hegðunarvandamál sem bitnuðu á öðrum íbúum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS

Þyngdarstuðull gagnrýndur

Stjórnvöld hafa valið að horfa ekki til mælanlegra mönnunarviðmiða við mat á öldrunarþjónustu. Þess í stað nota þau gæðastýringarkerfi, meta gæði ákveðinna þjónustuþátta með gæðavísum, 20 talsins, og umönnunarþörf með svokölluðum þyngdarstuðli.

Þyngdarstuðullinn er reiknaður fyrir hvern íbúa og svo er tekið meðaltal til að fá út þyngdarstuðul heimilisins. Hann á að gefa upplýsingar um hversu mikið þarf að sinna íbúum og greiðslur til hjúkrunarheimila taka mið af honum. Ef meðalíbúi heimilis telst hafa mikla umönnunarþörf fær það meira greitt en heimili þar sem þörfin telst lítil. Þetta kerfi hefur þó verið gagnrýnt. Sumir segja það úrelt og illa til þess fallið að meta raunverulega umönnunarþörf íbúa, hvað þá mönnunarþörf. Nefnd á vegum Landlæknis vinnur að því að endurskoða það. 

Gæðin aukast - er þá mönnunin góð? 

Síðastliðin ár hafa gæðin í öldrunarþjónustu aukist á landsvísu, flestir gæðavísar koma betur út en þeir gerðu fyrir fimm árum, sérstaklega hefur dregið úr þunglyndiseinkennum. Sums staðar er árangurinn gríðarlegur, þannig var helmingur íbúa á Hrafnistu í Reykjavík þunglyndur árið 2013 en það átti við um 4,3% í lok síðasta árs. 

En ef gæðavísar koma vel út er þá hægt að áætla að mönnun sé góð? Nei, segir Landlæknisembættið, þrátt fyrir að gæði og mönnun tengist séu engin mönnunarviðmið innbyggð í gæðavísakerfið. Sjúkratryggingar segja að gæðavísar geti komið illa út þrátt fyrir góða mönnun. Þjónustan þurfi að vera í forgrunni. 

Gæðum misskipt

Þrátt fyrir að gæði í hjúkrunarstarfi virðist hafa batnað á landsvísu er mikill munur á milli hjúkrunarheimila. Þannig eru 2,2% íbúa Hrafnistu í Reykjavík með ómeðhöndluð þunglyndiseinkenni en á Öldrunarheimilum Akureyrar á það við um yfir 15%. Á Droplaugarstöðum er nær óþekkt að ekki sé farið með fólk, sem glímir við hægða- og þvagleka, reglulega á salerni. Í Hornbrekku á Ólafsfirði á þetta við um 22% íbúa. Gögnin sem Spegillinn hefur úr að moða eru ófullkomin, ekki fengust svör frá öllum heimilum og sum svöruðu fyrirspurninni bara að hluta. Sums staðar er mönnun góð en þjónustan ekki nógu góð, sums staðar koma allir gæðavísar vel út þrátt fyrir fáar umönnunarklukkustundir og skort á fagfólki og sums staðar telja forsvarsmenn hjúkrunarheimila mönnun næga þrátt fyrir að gæðum sé ábótavant. 

Öll viðmið innan marka þrátt fyrir fáar klukkustundir

Á Höfða á Akranesi eru öll gæðaviðmið innan marka. Þar eru umönnunarklukkustundir á íbúa undir mörkum, fjórar talsins, það vantar á annað stöðugildi hjúkrunarfræðinga en hlutfall sjúkraliða er hátt að sögn Kjartans Kjartanssonar, framkvæmdastjóra. Síðastliðin ár hefur algengi þrýstisára, fjöllyfjanotkunar og þunglyndis aukist lítillega, rúmfastir íbúar eru fleiri en áður. Byltum hefur aftur á móti fækkað. Allir þessir þættir tengjast mönnun að mati landlæknisembættisins. 

Í Lundi á Hellu eru umönnunarklukkustundir 4,4. Hlufall hjúkrunarfræðinga er 15% og undir mörkum en hlutfall faglærðra almennt 51%. Forsvarsmenn segja auðvelt að fá hæft starfsfólk til starfa. Í Lundi eru allir gæðavísar innan viðmiða, flestir vel. 

Á Droplaugarstöðum í Reykjavík eru umönnunarklukkustundirnar fimm, það er skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum en allir gæðavísar innan marka. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Seljahlíð.

Íbúar sem hafi haft léleg spil á hendi

Í Seljahlíð í Reykjavík eru umönnunarklukkustundirnar 6,2, hlutfall menntaðra hjúkrunarfræðinga og faglærðra er yfir lágmarksviðmiðum landlæknis. Þrátt fyrir góða mönnun koma fimm gæðavísar illa út. Þannig voru til dæmis 20% íbúa með þvagfærasýkingu en hlutfallið á ekki að fara yfir 16% og meðaltalið á landsvísu var 10% síðastliðið haust. Hlutfall rúmfastra íbúa var 29%, tæplega tvöfalt hærra en það má vera og notkun róandi lyfja og svefnlyfja of mikil. Á heimilinu eru 20 hjúkrunarrými en auk þess búa þar um 50 í leiguíbúðum og margir þeirra fá heimahjúkrun. Forsvarsmenn heimilisins segja að vegna úthlutunarreglna Reykjavíkurborgar sé oft beint í leiguhúsnæðið einstaklingum sem hafi jafnvel alla ævi haft frekar léleg spil á hendi vegna veikinda og þá oft andlegra og þurfi mikið eftirlit fagfólks, þessir íbúar verði svo oft hjúkrunaríbúar og það skýri hvers vegna notkun níu lyfja eða fleiri sé við efri viðmið.

Nánast lágmarksmönnun en samt vandi

Á Öldrunarheimilum Akureyrar eru umönnunarklukkustundir 4,6 eða við lágmarksviðmið landlæknisembættisins. Hlutfall hjúkrunarfræðinga og faglærðra er of lágt en nálægt viðmiðunarmörkum. Árið 2017 var fjórum gæðaviðmiðum ekki náð, þau tóku til þunglyndis, þrýstisára, vökvaskorts og fjöllyfjanotkunar. Í skýringum heimilisins kemur fram að erfitt hafi reynst að fækka lyfjategundum enda allt talið; lýsi, vítamín, augndropar, hægðalyf og fleira, fjöldi lyfja sé nú svipaður og hann var árið 2010 en á sama tíma hafi notkun róandi lyfja og svefnlyfja minnkað. Hvað varðar þunglyndi segir að flestir þeirra sem ekki fá meðferð séu með langt gengna heilabilun og því hafi ekki þótt ástæða til að setja þá á lyf. Hjá öðrum hafi verið reynt að gefa þunglyndislyf án árangurs, fyrir þá séu reynd önnur meðferðarúrræði, svo sem lífsneistaklúbburinn. Þunglyndiseinkenni hafa minnkað frá árinu 2010. 

Helmingur íbúa með þunglyndi

Á Dalbæ á Dalvík er mönnun langt undir viðmiðum landlæknis, 3,35 umönnunarklukkustundir, hlutfall hjúkrunarfræðinga 11% og hlutfall fagfólks í heild um 40%. Sex gæðavísar sem tengjast mönnun koma illa út. Til dæmis má nefna að þunglyndiseinkenni hrjá 50% íbúa og 14,8% eru þunglynd án meðferðar, sem telst líka slæmt. Ef horft er til síðustu fimm ára hefur þó dregið úr þessum vanda. Algengi þvag og hægðaleka án reglubundinna salernisferða hefur aukist og er yfir viðmiðunarmörkum, hrjáir 18% íbúa. Aftur á móti hefur dregið úr tíðni þvagfærasýkinga og vökvaskorts. Vökvaskortur var verulega yfir viðmiðunarmörkum fyrir fimm árum, hrjáði þá 30% íbúa á úttektartímabilinu en nú er hlutfallið 3,7% og vel innan marka. Rúmföstum íbúum hefur fækkað en stöðug notkun svefnlyfja aukist og er yfir viðmiðunarmörkum, 55%. Þá er algengi þrýstisára yfir mörkum og fjöllyfjanotkun of mikil. 

Smæðin hjálpar - ómæld sjálfboðavinna

Hjúkrunarframkvæmdastjórinn, Bjarnveig Ingvadóttir, segist heppin með stöðugleika í starfsmannahaldi. Þá hjálpi nálægðin og smæðin, starfsfólk sé til búið að leggja á sig ómælda sjálfboðavinnu til að sinna íbúum, bæði dagsdaglega og þegar eitthvað sérstakt stendur til. Hún segist nægjusöm og sparsöm og að hún yrði himinsæl með hvert stöðugildi til viðbótar og segir að ef þrjú til fjögur bættust við væri hægt að veita lágmarksþjónustu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðný Ólafsdóttir
Dalvík.

Erfiðleikar við að fá fagmenntað fólk lengi loðað við heimilið

Í Hornbrekku í Ólafsfirði eru umönnunarklukkustundir líka fáar, 3,65, hluti íbúa er þó í dvalarrýmum og því eru umönnunarklukkustundir á íbúa í hjúkrunarrými eitthvað hærri. Forsvarsmaðurinn segir mönnun nægjanlega í dag, ástand íbúa og samsetning geri sjaldnast kröfur um meiri mönnun. Það gangi vel að fá ófaglærða til starfa, stofnunin hafi borið gæfu til að hafa í starfsmannahópnum góða og hæfa ófaglærða starfsmenn og sumir hafi langan starfsaldur. Hins vegar hafi það lengi loðað við staðinn að erfitt sé að manna stöður faglærðra. Fimm gæðavísar sem tengjast mönnun komu illa út, algengi hegðunarvandamála er yfir mörkum 44%, algengi þunglyndiseinkenna án meðferðar er of mikið eða 11%. Algengi þvag og hægðaleka án reglubundinna salernisferða er 22% og telst lélegt. Þá má nefna að 27% íbúa voru með þvagfærasýkingu og 22% glímdu við vökvaskort - þar er hámarksviðmið 7.  

Elísa Ingvarsdóttir, hjúkrunarforstjóri, Hornbrekku hafði þetta að segja um mönnunina: „Það koma dagar og tímabil sem eru þyngri í umönnun og þá bregðumst við einfaldlega við með því að bæta við starfsfólki á vaktir. Ég tel að við þyrftum helst að bæta umönnun og þjónustu sem snýr að því að efla virkni og sinna sálrænni aðstoð en mönnun nægir til að sinna líkamlegri aðhlynningu og almennri aðstoð og umönnun. Okkur vantar iðjuþjálfun og meiri þekkingu meðal starfsfólks á umönnun heilabilaðra.  
Það sem er erfiðast eru forföll og veikindi starfsmanna. Ef allir ynnu sína starfsprósentu þá værum við alveg ágætlega sett en það er sérstaklega erfitt að fást við mikil forföll og veikindi faglærðra því við höfum síður afleysingafólk í þeirra stöður. Þetta held ég að sé ekkert einsdæmi.“

Stór hluti íbúa fær róandi

Á Kirkjuhvoli á Hvolsvelli er mönnun of lítil, 3,4 umönnunarklukkustundir og skortur á fagfólki. Þar eru þó líka nokkur dvalarrými sem gætu skekkt myndina. Nokkrir vísar eru yfir viðmiðum, of margir taka svefnlyf af staðaldri, fjöllyfjanotkun er of mikil og 77% íbúa fá róandi sem er allt of hátt hlutfall. Aðrir vísar eru innan marka og koma flestir vel út. Forsvarsmaður Kirkjuhvols segir að það sárvanti fagfólk. „Við gætum bætt við hjúkrunarfræðingi. Okkur skortir mjög sjúkraliða og er það mikið áhyggjuefni. Við erum með ljómandi gott ófaglært starfsfólk en mikið af útlendingum sem hafa samt verið dugleg að tileinka sér okkar tungumál. Umönnunarklukkustundum á hvern íbúa þyrfti að fjölga.“ 

Áherslur breyttust með tilkomu samningsins

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, segir að eftir að rammasamningurinn tók gildi og hjúkrunarheimilin fengu það staðfest að þau þyrftu ekki að fylgja viðmiðum landlæknis hafi áherslur þeirra breyst. „Menn eru fókuseraðri á ákveðin atriði til að veita þjónustu og ýmis hliðarþjónusta sem menn hafa hætt, sem var verið að sinna áður.“ 

Talsverður munur en hvað þýðir það?

Það er talsverður munur á mönnun hjúkrunarheimila. Er viðmiðum um mönnun fórnað á altari gæðakerfis sem tekur aðeins til takmarkaðra þátta? Eða er vitleysa að vera að einblína á mönnun yfirleitt - nægir að hugsa um þjónustuna og gæðavísana? Kannski bitnar þessi munur á íbúum með einhverjum hætti en ríkið er sátt svo framarlega sem gæðaviðmið eru uppfyllt, sem og kröfulýsing velferðarráðuneytisins sem er sögð svo óljós að erfitt gæti reynst að kostnaðargreina hana.