Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hjúkrunarheimili ekki bara fyrir gamalt fólk

26.04.2018 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjö prósent íbúa á hjúkrunarheimilum eru undir 67 ára aldri. Pálmi V. Jónsson, læknir og formaður Færni- og heilsumatsnefndar höfuðborgarsvæðisins segir að hjúkrunarheimili séu ekki bara fyrir eldra fólk. Reglugerðum um þau hafi verið breytt árið 2008.  

Þrjátíu og fjögurra ára karlmanni, sem hlaut alvarlegan heilaskaða fyrir tæpu ári, býðst það eitt að vera vistaður á hjúkrunarheimili. Meðalaldur heimilismanna þar er áttatíu og þrjú ár. Fjallað var um mál hans í fréttum. Aðstandendur mannsins hafa reynt að finna annað úrræði fyrir hann en án árangurs. Pálmi segir að hjúkrunarheimili séu ekki bara fyrir eldri borgara. 
 
„Það eru um það bil sjö prósent allra á hjúkrunarheimilum undir 67 ára aldri. Það eru ekki margir mér vitanlega undir þrítugu en síðan eru fáeinir undir fimmtugu.“  
 
Og heldur fleiri sem dvelja þar séu milli fimmtugs og sextíu og sjö ára
 
„Nú eru þetta ekki lengur skilgreind sem hjúkrunarheimili fyrir eldra fólk. Reglugerð var breytt um það bil 2008 þegar að vistunarmatið sem þá var kallað var endurskoðað.“ 

Þá var ákveðið að hjúkrunarheimilin væru fyrir veikt fólk, átján ára og eldra, sem hefði þörf fyrir langtímaumönnun. Þó sé vitað að yngra fólk hafi öðruvísi þarfir. Þess vegna sé á að minnsta kosti tveimur ef ekki þremur hjúkrunarheimilum sérstakar einingar fyrir yngra fólk. 
 
“ Sko gamalt fólk getur bara verið ágætt fólk þó svo það sé veikt. Þannig að ég held að það þurfi ekki að vera svo óskaplegt í sjálfu sér. “

Hins vegar sé reynt að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu eins lengi og kostur er og á það ekki síst við um ungt og miðaldra fólk. 
 
„Sumir einstaklingar sem eru ungir eru kannski ekkert betur á sig komnir heldur en þeir sem eldri eru og það líður ekkert öllum yngri illa innan um eldra fólk en ég held að það þurfi að skoða hvern einstakling og reyna að átta sig á því hvað gildir fyrir hann.“   
 
Pálmi segir að færni- og heilsumatsnefndin taki við beiðnum frá fagfólki á endurhæfingardeildum eða annars staðar þar sem ungt fólk dvelur. 
 
„Við fáum ekki málin inn á borð til okkar nema fagfólkið telji að þetta sé rétta leiðin .“