„Hjartað slær í Kópavogi“

28.08.2017 - 19:35
Frá þingsetningu 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Þingflokksformaður Bjartrar framtíðar vill nýta tímann þar til hún hættir á Alþingi um áramót til að upplýsa um brot banka gegn þeim sem sviptir voru eignum sínum eftir hrun á grundvelli ólögmætra lána.

Theódóra S. Þorsteinsdóttir var kjörin á þing fyrir Bjarta framtíð í október síðastliðnum. Hún er þingflokksformaður í ríkisstjórnarmeirihluta en tilkynnti um helgina að hún hyggist afsala sér þingmennsku frá og með næstu áramótum. Þá ætlar hún að einbeita sér að sveitarstjórnamálum en hún er jafnframt formaður bæjarráðs í Kópavogi. „Ég er búin að sitja í þrjú ár sem kjörinn fulltrúi og mig langar til þess að minnsta kosti að klára kjörtímabilið. Mun örugglega gefa kost á mér áfram og vinna þá áfram að þeim verkefnum sem við erum í. Hjartað slær í Kópavogi og ég finn það núna að þegar pressan kom að velja þá fannst mér erfitt að slíta mig frá þessari ábyrgð, sérstaklega þar sem ég er alveg jafn skuldbundin þeim kjósendum sem kusu mig í Kópavogi eins og þeim sem kusu mig á þingið“, segir Theódóra og viðurkennir að pressan að velja annaðhvort þingmennsku eða sveitarstjórn birtist meðal annars í umræðu um tvöföld laun. „Mér fannst þessi umræða alveg harkaleg og ég tók hana nærri mér. Mér fannst þetta ekkert þægilegt.“

Gagnrýnd hver sem niðurstaðan hefði verið

Theódóra segir að breyta þurfi stjórnmálamenningu og vinnulagi á Alþingi, auka skilvirkni og samráð og draga úr átakapólitík. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir ákvörðun sína, meðal annars fyrir að hætta ekki bara strax. Hvers vegna gerir hún það ekki? „Það er líka spurning, af hverju tilkynni ég þetta svona snemma, ég hefði getað tilkynnt þetta í desember og lokað svo á eftir mér og farið. Ég held að það hefði líka verið gagnrýnt. Það hefði líka verið gagnrýnt ef ég hefði hætt strax.“

Kallar eftir skýrslu um óuppgerð hrunmál

Hún ætlar að nota tímann til áramóta til að ljúka ýmsum málum á þingi, til að mynda að kalla eftir skýrslum um óuppgerð mál er varða hrunið - sérstaklega um þá sem voru sviptir eignum sínum eftir hrun á grundvelli ólöglegra lána sem komin voru í vanskil.

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi