Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hjálparsamtök nýttu sér neyð annarra

12.02.2018 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: Oxfam International
Hjálparsamtökin Oxfam liggja undir þungum ámælum í Bretlandi vegna fregna um að starfsmenn samtakanna hafi keypt sér þjónustu vændiskvenna, sumum undir lögaldri, þegar þeir voru við hjálparstörf eftir stóran jarðskjálfta á Haítí árið 2010.  Ráðherra þróunarmála hefur hótað því að draga opinbera aðstoð til samtakanna tilbaka. Fleiri ásakanir hafa fylgt í kjölfarið.

Hörmungar ríða yfir Haítí

Jarðskjálfti upp á 7,1 stig reið yfir Haítí þann 12. janúar 2010. Skjálftinn skildi eftir sig gríðarlega eyðileggingu og manntjón; talið er að allt að 300.000 manns hafi týnt lífi og annar eins fjöldi slasaðist. Ein og hálf milljón manna missti heimili sín og tugþúsundir eru enn þann dag í dag án heimilis.

Hjálparsamtökin Oxfam voru ein margra sem sendu umfangsmikið hjálparlið til eyjarinnar. 230 manns voru á vegum samtakanna á eyjunni þegar mest lét og þau réðu yfir 70 milljónum punda til hjálparstarfsins (andvirði um 10 milljarða íslenskra króna). Mikill meirihluti þessa fólks vann myrkranna á milli við erfiðar aðstæður. En það er misjafn sauður í mörgu fé.

Kynsvall innan um neyð og dauða

Einu og hálfu ári eftir jarðskjálftann, í júlí 2011, barst tölvupóstur á aðalskrifstofu Oxfam í Oxford. Sendandinn var Paul Caney, háttsettur stjórnandi í teyminu sem stjórnaði hjálparstarfi í S-Ameríku og Karíbahafi. Í póstinum tilkynnti hann starfsfólkinu að uppljóstrari (e. whistleblower) væri á leið til þeirra til þess að tilkynna þeim um ósæmilega hegðun hjálparstarfsmanna Oxfam á Haítí.

Uppljóstrarinn lét hins vegar vera að heimsækja skrifstofuna, heldur sneri sér beint til þáverandi forstjóra samtakanna, lafði Barbara Stocking. Hann greindi henni frá einelti, kynferðislegri áreitni og vændiskaupum starfsmanna. Oxfam setti í gang innri rannsókn en tókst í rúm sex ár að halda sannleikanum frá almenningi, sem gefur samtökunum meira en 100 milljónir punda árlega.

Blaðamenn Times hafa á síðustu mánuðum púslað saman því sem raunverulega gerðist og það er ekki fallegt.

Samkvæmt heimildamönnum Times stundaði hópur karla sem unnu fyrir Oxfam, að halda mikil teiti þar sem vændiskonur voru keyptar til að þjónusta karlana.

Mennirnir bjuggu í svokölluðu „bleikum íbúðum", en svo mikið var partístandið og vændiskaupin að íbúðirnar gengu í daglegu tali undir nafninu „hóruhúsin".

Einn heimildamanna blaðsins segir að stúlkurnar hafi hlaupið um svæðið hálfnaktar í bolum merktum Oxfam, og helst hafi þetta minnt á lýsingar af kynlífssvalli frá tímum Kaligúla keisara Rómaveldis. Manna á meðal töluðu menn um þessar veislur sem „lambakjötsgrillveislur" vegna ungs aldurs stúlknanna og fullyrt var að einhverjar þeirra væru undir 18 ára aldri og allt niður í 14 ára gamlar.

Þessi hópur er sagður hafa náð heljartökum á innfæddum bílstjórum sem ráðnir voru til að aka starfsfólki Oxfam á milli staða. Þeir hafi einfaldlega sagt bílstjórunum að ef þeir vildu halda starfi sínu þá skyldu þeir gjöra svo vel og finna handa þeim stúlkur.

Innri rannsókn eða kattarþvottur

Gagnrýnar raddir innan Oxfam segja að sú innri rannsókn sem sett var í gang innan Oxfam hafi verið í hálfgerðu skötulíki. Rannsóknarteymi hafi verið sent til eyjarinnar, en hlutverk þeirra hafi aðallega verið að gæta þess að ekkert af þessum upplýsingum kæmu fyrir augu almennings. Þeirra hlutverk hafi verið að ná í það sem þurfti að ná í til þess að geta losað sig við nokkra menn og loka málinu.

Við rannsóknina viðurkenndi yfirmaður hjálparstarfsins á Haíti, Roland van Hauwermeiren frá Belgíu, hins vegar að hafa fengið sendar vændiskonur þangað sem hann bjó, í einbýlishúsi sem samtökin greiddu fyrir og gekk undir nafninu Arnarhreiðrið. Í stað þess að segja honum upp var honum boðið að segja upp störfum, ef hann liðsinnti við rannsóknina. Hann féllst á það. Tveir starfsmenn samtakanna til viðbótar sögðu upp störfum og fjórir voru reknir, engir þeirra Bretar eða Haítar, en allir með mikla reynslu af hjálparstarfi. Ástæður uppsagnanna voru kaup á vændiskonum og að hafa haft klámfengið efni og annað ólöglegt efni í fórum sínum. Ekki fæst uppgefið hvað þetta „annað ólöglega efni" er.

Talsmaður Oxfam segir að samtökin hafi ákveðið að snúa sér ekki til lögreglunnar á Haítí, þar sem ekki hafi verið líklegt að brugðist yrði við á nokkurn hátt, ekki síst í ljósi þeirrar óreiðu sem ríkti í landinu á þessum tíma.

Rannsókn Oxfam lauk með fréttatilkynningu þann 5. september 2011. Þar sagði efnislega að nokkrir  starfsmenn samtakanna hefðu orðið uppvísir að ósæmilegri hegðun og lögð var áhersla á að hún tengdist á engan hátt fjársvikum og hefði ekkert að gera með þær tæplega 100 milljónir Bandaríkjadala sem safnast hefðu í kjölfar jarðskjálftanna á Haítí. Hvergi í tilkynningunni var minnst á það kynferðislega ofbeldi sem uppljóstrarinn hafði tilkynnt æðstu stjórn Oxfam um. 

Stjórnvöld bregðast hart við

Bresk stjórnvöld hafa brugðist hart við eftir uppljóstrun Times í lok síðustu viku. Eftirlitsstofnun góðgerðarstarfs í Englandi upplýsti á laugardag að Oxfam hefði greint að hluta frá rannsókn sinni á sínum tíma, en látið hjá líða að senda stofnuninni lokaskýrslu rannsóknarinnar. Lýsingar Oxfam á atvikum hefðu verið ónákvæmar stofnunin hefði brugðist mun harðar við ef lýsingar og niðurstöður skýrslunnar hefðu verið nákvæmari og meira í takt við það sem nú hefur komið fram. Eftirlitsstofnunin hefur krafist nákvæmari greinargerðar hið bráðasta um það sem átti sér stað á meðal starfsmanna Oxfam árið 2011.

Penny Mordaunt, ráðherra þróunarmála í Bretlandi, hefur verið harðorð eftir uppljóstranir Times. Hún sagði í viðtali við BBC að stjórnendur Oxfam hefðu brugðist illilega með því að reyna að þagga málið niður. Samtökin hefðu bæði brugðist hinu hrjáða fólki sem veita átti neyðarhjálp, sem og þeim sem fjármögnuðu starfsemi þeirra og gerðu þeim þar með kleift að sinna hjálplarstarfi. Hún fundar með stjórnendum Oxfam í dag og segir koma til greina að hætta að veita samtökunum árlegt framlag frá ríkinu, sem í ár nam 32 milljónum punda, andvirði fjórum og hálfum milljarði íslenskra króna.

Mordaunt segist óttast að barnaníðingar sæki í störf hjá hjálparsamtökum til þess að geta sinnt vargeðli sínu. Því mælist hún til þess að öll hjálparsamtök sem njóta opinbers stuðnings taki til í ranni sínum og að því verði fylgt eftir af stjórnvöldum.

Fleiri ásakanir

Síðustu dægrin hafa fleiri uppljóstranir komið fram í dagsljósið. Breskir fjölmiðlar hafa greint frá því að bara á síðasta ári hafi meira en 120 starfsmenn hjálparsamtaka verið sakaðir um kynferðislega áreitni og/eða ofbeldi. 87 þeirra voru starfsmenn Oxfam, 31 voru starfsmenn Save the Children (Barnaheill) og nokkrir voru starfsmenn Rauða krossins og Christian Aid, allt samtök sem njóta ríkisstyrkja. Oxfam vísaði málum 53ja starfsmanna til lögreglu eða annarra yfirvalda og um 20 starfsmönnum var sagt upp störfum. Hjá Oxfam starfa um 5.000 manns og 23.000 sjálfboðaliðar.

Þá hafa einnig komið fram í dagsljósið ásakanir um að starfsmenn Oxfam í Tjad hafi ítrekað keypt sér þjónustu vændiskvenna árið 2006. Yfirmaður Oxfam í Tjad á þeim tíma var Belginn Roland van Hauwermeiren, sá hinn sami og bjó í Arnarhreiðrinu á Haítí og nýtti sér óspart þjónustu vændiskvenna- og stúlkna á sama tíma og algert hörmungar- og neyðarástand ríkti í landinu, árið 2011. Eftir að hann neyddist til að yfirgefa herbúðir Oxfam hefur hann fengist við hjálparstörf á vegum annarra hjálparsamtaka.
 

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV