Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hjálpa fyrrverandi föngum að fóta sig á ný

06.09.2018 - 13:36
Mynd með færslu
 Mynd: Rauði kross Íslands
Rauði krossinn ætlar að aðstoða fólk sem er að ljúka afplánun í fangelsi við að verða virkir þátttakendur í samfélaginu á ný. Verkefnisstjóri hjá samtökunum segir mikla þörf á slíkri aðstoð enda taki ekkert við hjá fólki að lokinni afplánun.

Verkefnið er að norskri fyrirmynd. Rauði krossinn þar í landi hefur stutt fólk sem lokið hefur afplánun í fimmtán ár með góðum árangri. Verkefnið hefur verið í undirbúningi allt þetta ár. Aðalheiður Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Kópavogi, segir mikla þörf fyrir aðstoð sem þessa. „Við ræddum við fjölmarga aðila sem tengjast föngum á einhvern hátt. Það voru allir sammála um það að það væri vissulega þörf á þessu. Það væri í rauninni ekkert sem tekur við þegar afplánun lýkur,“ segir hún.

Verkefnið er þannig byggt upp að sjálfboðaliðar sinna hlutverki félagsvina og aðstoða fyrrverandi fanga við að fóta sig á ný eftir afplánun. Þeir verða fólki innan handar, til dæmis við leit að húsnæði og atvinnu. Þá verður opið hús einu sinni í viku á vegum Rauða krossins þar sem fyrrverandi fangar geta sótt fræðslu og hist. Sjálfboðaliðarnir hafa verið í þjálfun að undanförnu og verkefnið fer að hefjast á næstunni. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir